Tuesday, September 4, 2018

Dagur 15

Það sem situr eftir núna þegar við erum að yfirgefa Kaliforniu er hvað þetta er fjölbreytt og skemmtilegt svæði og hve einfalt og öruggt það er að vera hér.  Allir sem við höfum hitt hafa verið hjálpsamir og ræðnir og flestir hafa sýnt alveg hreint ótrúlegan áhuga á Íslandi.  Það eru ekki mörg ár síðan að fáir vissu hvar Ísland var og hvað þá að nokkrum dytti til hugar að eyða fríinu sínu heima a Fróni.  Núna hittum við varla nokkurn mann sem ekki vissi helling um landið og annað hvort ætlaði að fara til Íslands, langaði til Íslands eða átti ættingja og/eða vini sem voru nýbúnir að vera á Íslandi.  Við eiginlega erum hætt að skilja þetta.  Til dæmis á veitingahúsinu hér í San Jose í kvöld.  Þá sitjum við einfaldlega og spjöllum saman og erum ekki að skipta okkur af nokkrum manni, þegar maðurinn á næsta borði hallar sér að okkur og spyr hvort við séum frá Íslandi.  Þegar við játuðum því lifnaði aldeilis yfir honum því hann sagðist fljúga regluega á milli Kaliforníu og Ítalíu og oft næði hann að dáðst að Íslandi þegar flogið væri yfir landið.  Hann sagðist svo sannarlega ætla að stoppa fljótlega. Við fórum auðvitað með vel æfða ræðu um gæði landsins, fegurð og glæsileika svo hann hlýtur að bóka fljótlega.  Við ættum reyndar að fá afslátt af flugi miðað við landkynninguna sem við höfum stundað hér !

Vorum á bændamarkaði í gær og þar var hópur af strákum frá Mexikó að vinna.  Um leið og þeir vissu að við værum frá Íslandi barst talið að knattspyrnu og landsliðinu sem þeir höfðu fylgst með á EM, heldur minna á HM enda “gekk ykkur ekkert vel þá” !  Í Columbia hittum við hjón sem spölluðu við okkur eins og við hefðum þekkst um árabil. Þau ráku búðina og vildu vita allt um Ísland, þau reyndar vissu helling enda að plana draumaferðina sína til þessarar spennandi eyju í norðri. 

En mikið rosalega er mikill munur á samfélögunum hér.  Upp í fjöllunum býr fólk við augljóslega miklu verri kjör en hér niður á ströndinni.  Í þessum smábæjum elska allir repúblíkana og Trump er dýrkaður og dáður. Fólk raunverulega telur hann vera frábæran forseta og að gera frábæra hluti fyrir landið.  Vinkona okkar í kjörbúðinni var aftur á móti sú eina sem hvíslaði að okkur að hún væri nú ekki hrifin af forsetanum. Hún sagði okkur líka að þarna í fjöllunum væru afar margir mjög þröngsýnir og fullt af fólki hefði ekki einu sinni komið út fyrir sýsluna á ævinni.  Sjóndeildarhringurinn væri því óneitanlega  afar þröngur.    

Borginar eru óneitanlega dásamlegar, lifandi, fjölbreyttar og fullar af tækifærum til að gera góða hluti og skemmtilega.  En þegar komið er út á land þá breytist umhverfið og mannlífið verður allt annað. Okkur finnst ekki síður skemmtilegt að þræða þessa litlu bæi og reyna að kynnast mannlífinu og því hvernig hjartað slær á þessum stöðum.  Við höfum líka verið svo heppin að ná að ræða við fullt af fólki og heyra hvernig lifið og tilvera er á þessum stöðum.  Þar höfum við grætt mikið á því að vera Íslendingar enda flestir sem segja það sama:  “Oh, are you from Iceland, how wonderful !  You are the first people we meet from Iceland” .....  og þá byrjar ballið :-)

Þetta verður síðasta færslan þar til okkur dettur til hugar að fara eitthvað annað.

Eitt að lokum:  Ég heyrði einn góðan í gær um San Fransisco.  Mark Twain sá gríðarlega góði rithöfundur sagði einu sinni að kaldasti vetur sem hann hefði upplifað hefði verið sumar í San Fransisco !  Það eru orð að sönnu :-)

Breytir því samt ekki að San Fransisvo er gríðarlega skemmtileg borg ! !


Monday, September 3, 2018

Dagur 13

Sonora er skemmtilegur lítill bær við Highway 49.  Við fundum hótel við aðalgötuna í gömlu húsi og ákváðum að gista þar.  Ágætt alveg þó að það aldurinn sjáist alveg.  Þarna var túpusjónvarp á herberginu sem okkur fannst ansi smellið.  Reyndar var betra efni í boði í túpunni en flatskjáunum hingað til.   Ég horfi ekki á sjónvarp á hótelum en betri helmingurinn hefur gaman að því.  Hingað til hefur tímanum verið varið í að horfa á auglýsingar í ofgnótt.  Svo mjög að “tummy tucker” er skyndilega orðið hið mesta þarfaþing og Crepe erase hrukkukremið er heimilisvinur.  Myndi reyndar aldrei þola að horfa á sjónvarpsstöðvarnar hér með þessum  endalausu auglýsingum ! ! !

En við fórum eins og alltaf út að borða í gærkvöldi sem er ekki í frásögur færandi nema að við biðum eftir borði á veitingastaðnum í vel ríflega 30 mínútur.  Það gerðu svo til allir og fannst það greiniega ekkert tiltökumál.  Við höfum lent í þessu áður hér úti og það sem mér finnst svo skemmtilegt er hversu allir eru hressir í biðröðinni. Að bíða þykir sjálfsagt og ekki nokkur maður ergir sig á slíku. Þetta skýrir að stóru leyti held ég hversu sáttir erlendir gestir Ölverks hjá Laufeyu og Elvari eru þó að þar þurfi stundum að bíða eftir borði !

En eftir að hafa rölt aðeins um miðbæ Sonora og kíkti í gamlar búðir þá keyrðum við áfram til bæjar þarna rétt lengra inn í landinu sem heitir Columbia. Þarna er best varðveitta götumynd Bandaríkjanna, lifandi safn sem er hluti af bænum.  Í húsunum er alvöru rekstur eins og kom í ljós þegar við alveg óvart lentum á spjalli við hjónin sem eiga kjörbúðina þarna .
Þarna er ferðamannatíminn fjórir tímar á ári og þau hafa eingöngu opið þá.  Þarna er hark um ferðamennina rétt eins og við þekkjum að heiman.  Þarna var gríðarlega heitt eða um 38 gráður.  Samt var þetta að sögn ekkert svo slæmt því þarna fer hitinn oft yfir 42 gráður á sumrin.
California býður upp á alla veðráttu, niður í San Fransisco er alltaf frekar nöturlegt, þoka og kaldara en allst staðar annars staðar.  Í staðinn er allt eins veður þar, vetur sem sumar.  Ströndin þar fyrir neðan er frískleg og kalt á kvöldin.  En eftir því sem innar dregur hitnar á sumrin og getur farið vel yfir 40 gráður en í staðinn er ansi kalt á veturnar og getur snjóað.

Eftir gott stopp í Columbia ákváðum við að bruna til San Jose þar sem við ætlum að liggja í leti fram að flugferðinni heim.  Við reyndar gátum ekkert brunað á hraðbrautinni þar sem umferðin rétt silaðist áfram og við vorum rúma 4 og hálfan tíma að keyra þessa leið sem undir eðlilegum kringumstæðum tekur um 2 og hálfan tíma.

Komum til Sunnyvale sem er rétt vð San Jose á hótelið okkar sem býr svo vel að hafa gott sundlaugarsvæði, heita potta og slíkt.  Nú verður það óspart notað fram að brottför.

Sunday, September 2, 2018

Dagur 12

Margir morgnar hafa verið notaðir til símtala heim þar sem nú er verið að undirbúa Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég hef vegna hans átt mörg símtöl við aðila vítt og breytt um landið vegna stjórnarkjörs sem þarna mun fara fram.  Hefði óneitanlega verið betra að vera með minni tímamismun akkúrat núna en þetta gengur nú samt alveg bærilega.  Í morgun sat ég í sólbaði á sundlaugarbakka í Mariposa á meðan ég ræddi við nokkra heima í Fróni.  Held að veðrið hafi verið aðeins betra hér :-)

En við lögðum af stað fyrir hádegi inn í Mariosa Grove sem er hluti af Yosemite þjóðgarðinum en um 30 mílum hér suð/vestur af.  Þetta átti nú ekki að vera lengi farið en bæði var vegurinn kræklóttur og seinfarinn og eins var heilmikil umferð.  Greinilega allir á sömu leið og við. Þegar við áttum eftir eina 8 kílómetra að garðinum þá stoppaði röðin alveg.   Smám saman mjakaðist hún áfram og á næstum því klukkutíma tókst okkur að komast að innganginum í garðinn.  Þar tók nú ekki betra við því bílastæðin voru öll full og þar af leiðandi lokuð og okkur og fjöldanum öllum öðrum því meinaður aðgangur að garðinum.  Sagt að fara til nærliggjandi bæjar og bíða þar hvort að stæðin myndu opna aftur.  Við þorðum því nú alls ekki því þá myndi öll röðin fylla stæðin áður en við kæmum til baka ef þau opnuðu.  Lögðum þvi út í kanti þar sem voru fyrir tveir bílar með fjölskyldu frá Suður Ameríku.  Ákváðum að vera í samfloti og eftir um hálftíma bið í brakandi sólinni og hitanum keyrðum við til baka og hittum á óskastund.  Opin bílastæði !   Það hefði nú verið frekar fúlt að þurfa að fara heim án þess að heimsækja Mariposa Grove.

Sá staður er heimkynni trjá sem heita the Giant Segoia sem eru stærstu lifandi verur á jarðarkringlunni.  Miklu stærri og þyngri til dæmis en stærstu hvalir.  Þetta eru risastór ævagömul tré sem þarna hafa vaxið um aldir.  Elstu trén eru talin vera allt að 3.000 ára gömul.  Þau hæstu eru rétt um 100 metrar og ummála þeirra stærstu er um 30 metrar.  Það er algjörlega meiriháttar að upplifa nándina við þessi tré og ímynda sér um leið hvernig heimurinn leit út þegar þeirra fræ tók að spíra og tréð tók að vaxa.  Löngu áður en til dæmis Jesú kom til sögunnar.  Alveg hreint stórmerkilegt.  Svo er þetta alveg hreint yndislegur staður.  Við gengum þarna stóran hring um garðinn upp og niður hóla og hæðir og dáðumst að umhverfinu.

Þarna hittum við dönsk hjón sem voru í svipaðri ferð og við svo við gátum deilt reynslusögu og gefið góð ráð, gaman að því.  En enn skemmtilegra var þó að rekast á ungt par sem gaf sig á tal við okkur þegar þú heyrðu okkur spjalla saman.  Þá voru þetta Spánverjar sem eru búin að búa í Vík í fjógur ár og vinna í Icewear.  Það var alveg meiriháttar að rekast svona á þau þarna.  Einu Íslendingana sem við höfum fundið hér í Kalifornú, ef Íslendinga skyldi kalla :-)
Aftur á móti heyrði eldri maður okkur tala saman og hann kom líka og spurði hvaða við værum, þegar við sögðum honum það þá gargaði hann yfir allan hópinn “they are Icelandic “. Þá vorum hann og frún að plana stopover á Íslandi á næstunni og vildi hann vita allt um Reykjanesið því hann ætlaðoi nú ekki mikið lengra !  En svo ég segi það aftur þá er annar hvor maður annað hvort nýkominn eða að fara til Íslands - markaðsherferðin er að svínvirka svo ég held að bankarnir ættu nú að opna fyrir lán til hótelbygginga aftur !

Eftir Mariposa Grove keyrðum við eftr Highway 49 sem kallast gullgrafaravegurinn. Virkilega skemmtilegt leið en miklu fjölbreyttari og erfiðari en við áttum von á. Upp og niður fjöll og dali í mikilfenglegu landslagi.

Enduðum í smábæ sem heitir Sonora.  Einn af gullgrafarabæjunum sem frægir eru hér um slóðir.  Römbuðum á ágætis hótel í miðbænum sem átti laust herbergi.  Það var heppilegt :-)

Á morgun ætlum við að skoða bæinn og kíkja á Columbia Historical State town áður en við keyrum til San Jose þar sem við ætlum að vera næstu tvær nætur !

Gleymdi reyndar að minnast á það að hitinn hér er orðinn ansi vígalegur 37 stig í dag og brakandi sól var ansi mikið !

Saturday, September 1, 2018

Dagur 11

Rólegur dagur í dag.  Náðum að framlengja hótelinu um eina nótt þannig að við verðum hér til sunnudags.  Hér er afskaplega gott veður svo það var ágætt að sóla sig aðeins á hótelinu í morgun.  Verst að betri helmingurinn sem þó á gótt tækifæri á að verða brúnn nennir ekki að liggja í sólbaði.  Fyrir mér hefur það engan tilgang að liggja í sólbaði enda þyrfti ég að gera það í margar vikur ef einhver árangur ætti að nást.  Þetta er aftur á móti ágætis afslöppun :-)

Fórum á  “byggðasafnið” hér í dag.  Þetta er gullgrafarabær og það var gaman að sjá þeirri sögu gerð skil á safninu.  Þessa helgi er bæjarhátíðin þeirra hér í bæ og var einn af hápunktunum skrúðganga ein mikil sem fór niður aðalgötuna.  Það var þrælskemmtiegt að sjá þetta og gaman að fylgjast með.  Við hittum þarna nokkra heimamenn sem sögðu okkur allt um hina mismunandi vagna og annað slíkt.  Þarna voru til dæmis frambjóðendur til hinna ýmsustu embætta meðal annars til þings.  Það var svo greinilegt að hér eiga demókratar ekki uppá pallborðið og Trump er aðalmaðurinn.  Þetta heyrðum við aftur og aftur í dag.  Við ákváðum nefnilega að heimsækja bæjarhátíðarsvæðið sem er hér rétt utan við bæinn og þar ráfuðum við um og skoðuðum og spjölluðum við ýmsa sem við hittum.  Það er svo merkilegt að hér finnur maður fyrir markaðssetningu flugfélaganna á Íslandi. Annar hver maður sem við hittum átti ættingja, börn, frændfólk eða vinnufélaga sem voru nýkomnir úr stórkostlegu fríi til Íslands.  Hingað til þegar við höfum verið að ferðast þá höfum við hitt fólk sem langar svo ægilega til Íslands en núna var það veruleikinn fyrir alveg ótrúlega marga. Flugmiðinn kostar minna en ferð til Nashville sagði ein og markaðssetningin á landinu er mikil.  Við þurfum ekki að óttast það að ferðamenn séu að hætta að koma öðru nær.  Síðan er verðlagið hér og heima svo sem ekkert svo mjög ólíkt þannig að ferðamenn héðan munu ekki fá áfall yfir því.  Verðið á matseðlinum er kannski mun ódýrara en þegar kemur svo að því að borga reikninginn þá bætist við skattur og hið fullkomlega óþolandi þjórfé.  Á reikningnum eru oftast gefnir valkostir 15 -18 eða 20% ofan á reikninginn og maður lendir alltaf einhvers staðar þarna á milli.  Og maður snýr sér ekki við öðru vísi en að þurfa að borga þjórfé.  Þegar þetta leggst saman þá er verðið orðið ansi mikið öðruvísi en lagt var af stað með í upphafi.  

Friday, August 31, 2018

Dagur 10

Nennum ekki lengra á næstunni og erum því að reyna að fá hótelinu framlengt í þrjá daga.  Erum þegar komin með kvöldið í kvöld hér í Mariposa og einstaklega almennileg kona í móttökunni er búin að hringja í öll hótel í 30 km radíus og kanna hvort þau eigi laust handa okkur næstu nótt líka.  Hér er aftur á móti allt uppbókað alls staðar, labour day helgi og allir gististaðir fullir.   En við vonum það besta !

Hér þýddi ekkert annað en að drífa sig þokkalega snemma á fætur því við ætluðum í Yosemite þjóðgarðinn í dag.  Héðan er um klukkutíma akstur inn í þjóðgarðinn en þetta er einstaklega skemmtileg leið um djúpa dali með skógivaxnar hlíðar.  Þar mátti víða sjá ummerki skógareldanna sem hér hafa geysað undanfarin ár.  Sérstaklega fannst manni sorglegt að sjá íbúðarhús á nokkrum stöðum þar sem ekkert stóð eftir nema skorsteinninn og bárujárnshrúga.  Hér eru húsin undantekningarlaust út timbri og byggingarlagið er nú ekki sérlega merkilegt.  Síðan eru risastór tré ofan í húsunum þannig að þetta umhverfi er auðvitað ekkert annað en áskrift á stórslys.  Eldarnir í ár voru mun minni hér en í fyrra þó að þeir hefðu verið meira í fréttunum sökum þess hversu illa gekk að slökkva þá er okkur sagt.  En hér eru gríðarleg flæmi brunnin og skógurinn víða illa farinn.  Sá reynda á upplýsingaskilti í dag að indíánarnir sem hér bjuggu í árþúsundir brenndu stór svæði viljandi til að búa til akra og opna skógana.  Vinkona okkar í gestamóttökunni segir að þetta séu algjörir aular sem núna stýra hér því það verði að grisja þessa skóga miklu miklu meira en gert er til að hefta útbreiðslu skógarelda. 

En aftur að Yosemite sem er algjörlega stórkostlegur staður.  Það fyrsta sem maður sér er El Capitan, gríðarlega hátt þverhnípt fjall afar nálægt veginum þegar komið er inn í dalinn.  Við strönduðum þar lengi því einhvern veginn hélt maður að þetta gæri ekki orðið fallegra,  En auðvitað gat að það !  Inni í dalnum taka við dásamleg svæði þar sem gönguleiðir eru upp um öll fjöll miserfiðar og skógarstígar víða.  Við gengum upp að Vernon fossunum, eða réttara sagt Lárus kláraði gönguna upp þessar ferlega bröttu brekkur upp að fossunum en ég er alltaf svo hrædd um að hnéð gefi síg á leiðinni niður svo ég hætti rétt áður en klifrið tók við.  Naut mín í staðinn í sól- og fótabaði við ána í hreint alveg yndislegu veðri og umhverfi. 

Eftir að hafa þvælst um dalinn þveran og endilegan með YARTS sem eru rútur sem þarna flytja mann á milli staða ákváðum við að keyra upp að Tunnel view sem er útsýnisstaður hér ofan við dalinn þar sem hægt er að sjá hvernig fjöllin umlykja þennan dal. Það var einstakt að sjá þetta.  Enda erum við ekki að tala um nein venjuleg fjöll hér heldur eru hæstu tindar 10.700 fet sem eru tæpir 3.000 metrar held ég.   Sumir klettaveggirnir eins og El Capitan eru um kílómetri á hæð og önnur fjöll eins og Half Doma miklu miklu hærri.   Úr því að við vorum nú lögð af stað upp í fjöllin þá ákváðum við að keyra til Glacier Point sem er um klukkutíma akstur upp úr dalnum.  Það var snúinn og kræklóttur fjallvegur sem opnaði fyrst í gær sökum skógareldanna sem þarna hafa brunnið víða í kringum veginn.  Enn rauk meira að segja úr nokkrum trjám þegar við keyrðum framhjá.   En leiðin virtist endalaus en hún margborgaði sig þegar við sáum útsýnið yfir Yosemite þegar við komum loksins á leiðarenda.  Þarna er maður í um 1.000 metra hæð með lóðrétt bjargið beint fyrir neðan sig og útsýni beint ofan í dalinn og á göngustígana og fossana og fjöllin í Yosemitel. Algjörlega stórkostlegt.   

Fengum reyndar algjört áfall þarna á brúninni.   Þarna var hópur af ungu fólki sem hegðaði sér alveg eins og blábjánar á þessum hættulega stað.  Bara að rifja upp að það var þverhnípt þarna niður og 1.000 metra fall.  Einn úr þessum hópi hoppaði uppá grindverkið sem þarna var til að taka myndir.  Ein stúlkan sat á brún grindverksins til að ná myndum.  En það tók nú alveg steininn úr þegar hópurinn hvatti eina stelpuna til að fara fram á brún á syllu sem þarna skagar þónokkuð fram af berginu og þar stóð hún og lét taka af sér myndir áður en hún settist, mjakaði sér fremst og dinglaði svo löppunum.  Við vorum reyndar alveg sannfærð um að þarna yrðum við vitni að banaslysi.  Þegar þessi unga dama hafði svo komið sér til baka, tóku aðrir við og og fífluðust á syllunni.  Hittum þarna eldri konu sem sagðist búa í garðinum og hún leitaði logandi ljósi að landverði svo þetta yrði stoppað en hún sagði að eitt árið núna nýlegu hefðu 17 manns fallið fram af Glacier Point, viljandi og óviljandi.  En mikið sem okkur fannst óþægilegt að verða vitni að þessum fáránlega hálvitagangi fólks sem átti að heita fullorðið. 

Rétt náðum heim á hótel í ljósaskiptunum.  HIttum vinkonu okkar í móttökunni sem vill allt fyrir okkur gera.  Hún reyndar telur okkur vera frekar undarlega ferðamenn þar sem við vitum ekki hvert við ætlum næst - en ég er samt með ákveðna hugmynd sem ég hef verið að skoða og það er að fara á slóðir gullgrafara og kúreka og keyra næst highway 49 eða gullgrafara leiðina sem er víst seinfarin og snúin en leiðir mann í gegnum fullt af smábæjum sem byggðust upp í kringum gullæðið mikla.  Erum held ég hætt við Napa dalinn.  Viljum frekar vera hér í óbyggðunum ef óbyggðir skyldi telja. 

Ætlum að vera hér í Mariposa og nágrenni á morgun.  Skoða bæinn, heimsækja bæjarhátíðina (county fair) sem hér er í tilefni af labour day og ætlum svo að fara og skoða risavöxnu trén sem eru í 20 mílna fjarlægð.  Miklu rólegra sem sagt á morgun.


Dagur 9

Verslunarferð í stóra mollið í Gilroy í dag.  Tókst alveg ágætlega ...

Keyrðum síðdegis til Mariposa sem er í útjaðri Yosemite þjóðgarðins en þar ætlum við að eyða deginum á morgun.

Ökuferðin hingað var hin skemmtilegasta þó hún væri líka kapphlaup við myrkrið því við reynum að forðast að þurfa að leita að hótelum í myrkrinu á kvöldin.  Þetta eru gríðarleg landbúnaðarhéruð og akrarnir sem hér eru engu líkir.   Keyrðum í gegnum breiður af maís og papríku, eplatrjám og kirsuberjatrjám, mættum bílum troðfullum af hvítlauk og keyrðum meðfram endalausum vínekrum.  Við skiljum alls ekki hvernig þessum gríðarlegu flæmum er sinnt og hvernig í ósköpunum þetta er allt saman týnt.  En miðað við magnið að mexíkósku vinnuafli sem við sjáum hér víða held ég að Trump ætti nú bara að þakka fyrir að einhvern nennir að vinna við þetta. 

En annars fannst okkur stór svæði þarna varla byggileg.  Jarðvegurinn er svo þurr og þykkt rykið liggur í loftinu og einhvern veginn yfir öllu sem maður sér.  Það hlýtur að gera mann brjálaðann að búa við þetta. 

Sáum einnig fjölda risastórra nautabúa þar sem hundruðir eða þúsundir nautgripa eru hafðir í stórum girðingum og ræktaðir til kjötframleiðslu.  Það er sérstakt að sjá þessar stærðir og miða þær svo við okkar aðstæður heima.  Þar er ekki líku saman að jafna. 

Thursday, August 30, 2018

Dagur 8

San Simeon með sína örfáu íbúa (443) kom á óvart.  Skemmtilegur strandbær en svo sem fátt annað þar nema Hearst kastalinn.Hann heimsóttum við í dag og eyddum þar góðum tíma.  Bæði af því að þar er margt að sjá og skoða en einnig af því að það var svo hrikalega gott veður og ég fann svo góðan hægindastól til að sóla mig í.  Er sannfærð um að stórstjörnur fyrri tíma lágu einmitt svona einhvers staðar á fjölmörgum pöllum kastalans og nutu sólar.  William Randolph Hearst byggði þennan risastóra og yfirmáta skreytta kastala á árunum 1919 til 1947.  Átti upphaflega að vera lítið sveitasetur fyrir fjölskylduna en hann virðist hafa verið mikil eyðslukló eins og sjá má víða um landareigninga.  Hér hafði hann til dæmis dýragarð með alls konar framandi dýrum sem sum hver eru hér enn.  Til dæmis ganga hjarðir zebrahesta með nautgripunum hér um hlíðarnar.  Sáum einmitt hóp zebrahesta á leiðinni hingað upp eftir.   WRH hefur augljóslega verið hrifinn af fallegum og verðmætum munum því þeir eru út um allt í höllinni. Allt frá egpypskum styttum sem eru yfir 3.000 ára gamlar og í veggteppi sem búin voru til af Lúðvík fjórtanda í Frakklandi.  Þarna er ekki hægt að fara um nema með leiðsögumanni og okkar maður var einstaklega skemmtilegur.  Varðandi söfnunaráráttu WRH  þá setti hann hana í gott samhengi.  Ef að einstaklingur ætlar að eignast jafn marga listmuni og RWH gerði á sínni ævi þarf viðkomandi að hefjast handa við fæðingu og kaupa á hverjum einasta degi, alla daga ársins 10 listmuni.  Þegar viðkomandi verður níræður hefur hann náð sama fjölda og auðkýfingurinn keypti á sinni ævi.  Það er óneitanlega svolítið skrýtið að sjá ómetanleg listaverk annarra þjóða komin hér upp á vegg í kastala á fjallstoppi í Kaliforníu.  Kannski rétt að minnast líka á það að sundlaugar þessa kastala eru klárlega eitt það flottasta sem ég hef séð.  Útisundlaugin eða Neptúnusar laugin er alveg hreint dásamleg í rómönskum stíl.  Innilaugin er líka dásamlega falleg en allt öðru vísi.  Flísalögð í hólf og gólf og meira að segja sundlaugarbotninn glitrar á móti manni !

En kastalinn er afar fallegur, garðarnir í kring einstakir og virkilega gaman að sjá þetta allt saman.  Lárusi varð reyndar fljótt hálfpirraður á gegndarlausum flottheitunum og sagðist hreinlega verða kommúnisti þegar hann yrði vitni að svona bruðli.  Ekki er það nú gott ! 

En eftir Hearst kastalann fórum við niður að strönd og gengum út á risastórt “boardewalk” sem þar er eða bryggja lengst út í sjó.  Þar voru nokkrir að veiða enda sást til margra ansjósuvaða í sjónum og það boðaði komu  komu stærri fiskanna.  Einnig sáum við otra að leik í þarabreiðu út í sjó og dökka pelikana sem fyrir nokkrum árum voru í útrýmingarhættu en eru nú kominir fyrir vind.  Við ætluðum aldrei að tíma að leggja af stað út á þjóðvegina aftur enda erum við núna að færa okkur frá sjónum sem er svo yndislegur hérna niður frá 

Keyrðum síðan sem leið lá um sveitirnar og upp Kaliforníu aftur.  Í gegnum frjósamar sveitir þar sem risavaxnir akrar teygja sig upp um allar hlíðar.  Þarna er mikið ræktað af vínþrúgum og fjöldi vínræktanda á leiðinni.  Um tíma keyrðum við um algjört flatlendi sem gat auðveldlega komið inn hjá manni þunglyndi.  En það var nú sem betur fer ekki langur spotti !  Hér er aftur á móti framleitt grænmeti á ökrum sem eru af þeirri stærð að maður getur varla ímyndað sér það.  Héðan streymir brokkolí, salat, avocado, alls konar ber og fleiri jarðarávextir út um allan heim. 

Erum nú komin til bæjar sem heitir Gilroy sem kallar sig hvítlaukshöfuðborg heimsins.   Hér er haldin risavaxin hvítlaukshátíð einu sinni ári sem er fjölsótt skilst mér.  En bærinn er nú samt  helst frægur fyrir risavaxna verslunarmiðstö sem hér er.  Þar með vitið þið hvað ég ætla að gera á morgun :-)

Næsti viðkomustaður er Mariposa sem er í grennd við Yosemite þjóðgarðinn ! 

Wednesday, August 29, 2018

Dagur 7. 

Lögðum af stað í fyrra fallinu frá Carmel eftir að hafa fyllt á tankinn á bílnum því allir gefa okkur þær ráðleggingar að hafa nægt bensín á bílnu, vatnsflöskur með í för og klósettpappír.  Maður gæti haldið að við ætluðum yfir Nevada eyðimörkina!  En leiðin á milli Carmel og San Simeon er kölluð Big Sur.  Þarna var ekki lagður vegur fyrr en 1923 en áður var þetta talið algjörlega óbyggilegt svæði sem var afar illt yfirferðar.  Enda eru þarna há fjöll sem öll renna meira og minna beint út í sjó. Vegurinn hangir því í hlíðunum og það hefur verið heilmikið afrek á sínum tíma að leggja þetta auk þess sem brúa þurfti öll þessi gil sem þarna eru.  Stærsta brúin og sú frægasta heiri Big Bixby og er ansi tilkomumikil.  Við höfðum ákveðið að keyra suður eftir að hafa legið yfir heimasíðum.  Þannig nær maður að skjóta sér út á öll útskotin og kemst alls staðar betur út á veginn en ef maður keyrir í norður.  Sums staðar hafði lofthræddum verið ráðlagt að keyra uppeftir en mér fannst þetta nú alls ekki svo slæmt.  Auðvitað er víða bratt og snarbratt niður af veginum en Kaninn er bara svo ægilega passasamur með allt að manni dettur ekki til hugar að þetta geti verið hættulegt. Hér eru vegrið á svo til öllum hættulegum stöðum, merkingar í lagi og aksturslagið til fyrirmyndar hjá öllum.  Hafandi keyrt til dæmis niður Serbíu í fjöllunum þá er þetta hreinn barnaleikur.  Það blikna reyndar allar akstursleiðir í þeim samanburði.   En Big Sur er talin vera ein skemmtilegasta aksturleið Bandaríkjanna og maður skilur það vel eftir að hafa ekið þetta.  Einstakt að hafa Kyrrahafið alltaf á hægri hönd, dásamlegar strendur, fossa og fjöll og sérstækar bermyndandir út í sjóinn. Við tókum þetta mjög rólega eins og flestir aðrir, stoppuðum út um allt og dáðumst að umhverfinu.  Fengum okkur að borða á veitingastöðum sem urðu á vegi okkar og röltum um skógana.  Þegar klettunum sleppti komum við á sléttlendi þar sem greinilega var búrekstur og allt annað umhverfi.  Þar fljótlega sáum við fjölda bíla stopp á skipulögðu bílastæði og ákváðum að kíkja þangað líka.   Þá var þetta griðastaður rostunga sem þarna halda til á ströndinni.  Það var einstaklega skemmtilegt að sjá þessar tröllauknu skepnur liggja þarna makindalega í sandinum. Einstaka sinnum bærðu karldýrin á sér og það var mikið sjónarspil að sjá þessari risaskepnur rísa upp og reka upp öskur.  Gaman að þessu.  Komum svo til San Simeon rétt fyrir kvöldmat þar sem við höfðum pantað herbergi á móteli við ströndina.  Kom á óvart, afskaplega gott herbergi og þægilegur staður.  Alls ekki svo mikið verra heldur en rándýra gistingin í Carmel.  

Sáum dásamlegt sólsetur hér á ströndinni í kvöld.  Það var eitthvað alveg sérstakt...

Á morgun Hearst kastali ....

Ég er búin að gefast upp á því að setja myndir hér ínná bloggið.  Þvílíkt vesen í þessari nýju útgáfu af blogger.  Í staðinn set ég helling á facebook.  Stóðst ekki freistinguna og ég sem ætlaði bara að setja eina mynd á dag :-)

Monday, August 27, 2018

Dagur 6. 

Rólegheit í hinni undurfögru Carmel by the sea í dag.  Nenntum ekki einu sinni af hótelinu fyrr en undir hádegi.  Við getum alveg átt rólega daga ef einhver skyldi hafa haldið annað :-)

Röltum síðan um götur Carmel og skoðuðum hús og búðir og litum á veitingastaðina.  Þetta er einstaklega fallegur bær sem hefur þá sérstöðu að hér eru götur ekki í beinum línum og húsin af hinum fjölbreyttustu tegundum.  Hér eru krúttleg gamaldags hobbitahús en einnig risastórar villur sem kosta yfir hálfan milljarð.  Enduðum daginn á ströndinni alveg þar til skýin tóku yfirhöndina.  Hér er hitinn í kringum 18 gráður og léttskýjað.  Þetta hitastig hættir ekki að koma mér á óvart þannig að ég ræddi þetta við heimamann í dag. Svona er ströndin í Kaliforníu og það veðrur ekki heitara.  Þess vegna streyma hingað íbúar annars staðar í Bandaríkjunum sem sjá þetta hitastig í hillingum búandi kannski inn í landi þar sem hitinn er um eða yfir 40 stigum.

Borðum í dag á veitingastað í eigu Clint Eastwood sem er hér við hliðina á hótelinu.  Ein albesta nautasteik sem Lárus hefur borðað og hefur hann nú marga fjöruna sopið þegar kemur að nautakjöti.


Sunday, August 26, 2018

Dagur 5. 

Hafði verið svo ótrúlega framsýn að finna bílaleigu svo til við hliðina á hótelinu okkar í San Fransisco.  Þannig að við röltum bara rétt upp götuna til að ná í bílinn og lögðum af stað út úr borginni fyrir hádegi.  Það tók þó nokkurn tíma að þræða miðborgina til að komast út á highway 1 en gekk samt ágætlega.  Ég er reyndar enn meira undrandi á aðstæðum í þessari borg eftir þessa bílferð því hólarnir og hæðirnar í hreinlega öllum hverfum eru hreint með ólíkindum.  Það eru blindhæðir í íbúðahverfum og staðir á vegunum þar sem er brekka upp á hólinn úr fjórum áttum.  Það hlýtur að vera meiriháttar lýjandi að búa í þessari borg allavega ef þú ert fótgangandi.  Við keyrðum svo eins og leið lá meðfram Kyrrahafinu í átt að Monterey Bay og Carmel þar sem við gistum næstu tvær nætur.  Þetta er afar falleg leið og ströndin er heillandi.  Skemmtilegar sandstrendur, víkur og klettar skiptast á alla leiðina.  Heilmikið landslaga og dýralíf enda sáum við ógrynni fugla og sela í hvert sinn sem við stoppuðum.  Við fundum alveg hreint ótrúlega skemmtilegan veitingastað á leíðinni sem heitir Miramar og er alveg við ströndina.  Sátum þar svo lengi að mér tókst að sólbrenna enda gerir sólarvörnin lítið gagn ef hún er geymd í töskunni.

Á leiðinni stoppuðum við við vitann Point Neuf sem er einn af þeim stöðum sem allir verða að skoða.  Mjög fallegur staður en þar sér maður greinilega muninn á aðstæðum heima og hér.  Þessi viti sem er það sem allir skoða hér um slóðir er að hrynja vegna viðhaldsleysis og núna er í gangi almenn söfnun til að reyna að bjarga honum.  Greinilega enginn Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hér !   Búið er að bjarga ljósgjafanum niður og er lampinn til sýnis.  Einstaklega fallegur eins og þessi mynd sýnir og risastór þó það sjáist ekki á myndinni.

Hér keyrðum við í gegnum endalausa akra af berjum alls konar og ætiþistlum.  Hér eru ætiþistlar út um allt og alls konar annað grænmeti.  Hundruðir hektara ábyggilega undir eða meira. Hér er líka alltaf sól og ríkulegt sumar.  Minni þoka en í San Fransisco !

Komum síðdegis til Carmel sem er fallegur lítill bær við Monterey flóa.  Reyndar alveg troðfullur af ferðamönnum og augljós túristagildra.  Við höfum held ég aldrei séð eins flotta bíla og hér eru.  Á bílastæðinu við hótelið er svo mikið af sportbílum að það hálfa væri nóg.  Verslanir eru líka allar að henta vel stæðum kúnnum og fasteignasölurnar selja hús sem kosta rúman hálfan milljarð.

Borðuðum á skemmtilegum stað í kvöld sem heitir The treetop restaurant.  Skemmtilegir þjónar sem kunna svo sannarlega að auka þjórféð sem er reyndar fullkomlega óþolandi fyrirbrygði.  Á leíðinni kíktum við aðeins í búðir og fundum meðal annars þennan hnakk sem okkur leist bara nokkuð vel á.  Verðið reynar bara fyrir lengra komna ekki nema rétt um 6 milljónir króna ! 

Saturday, August 25, 2018

Dagur 4.

Eina klúður ferðaskipuleggjarans enn sem komið er var í dag.  Ætluðum í “Museum of ice cream” sem er hér við Union Square.  Vorum mætt um leið og það opnaði til að losna við röðina en það skipti nú litlu máli!  Do you have a reservation? Var spurt um leið og við komum inn og skömmustuleg varð ég að viðurkenna að svo var ekki.  Þar með var málið dautt.  Inná þetta flotta safn er eingöngu selt á netinu og það er alltaf uppselt - ALLTAF !   Ekki nokkur einasti möguleiki að reyna að sannfæra afgreiðslufólkið um að það væri afar mikilvægt að við kæmumst inn verandi með ísgerð á Íslandi og allt það!
  Þannig að við rétt gátum kíkt á dýrðina í anddyrinu áður en við hurfum á braut.  Ferlega fúlt - en maður getur ekki vitað allt er það ? ? ?   En mikið hrikalega er þetta vinsælt - vona að systkini mín lesi þetta og sjái möguleika Kjörís í Hveragerði á að slá í gegn :-)

Ráfuðum aðeins um miðbæinn, tókst að versla aðeins áður en við fórum út í Golden Gate park.  Það var sól og fínt veður í miðbænum en kalt og þoka út í Golden Gate.  Þetta er alveg hreint furðulegt!  Svo setja þeir flottustu garða bæjarins út við sjóinn þar sem er alltaf þoka !  En í Golden Gate fórum við í vísindasafnið þeirra hér í Californíu.  Nú erum við búin að ferðast svo víða og sjá svo mörg svona söfn að þau fara öll að renna saman.  Samt var þetta virkilega flott og heillandi að sjá hversu vel það var uppsett og fræðandi.  Fyrir okkur var jarðskjálftahermirinn náttúrulega alveg hreint meiriháttar og eins upplýsingarnar um jarðskjálftana sem hér hafa orðið.  Tók ansi góða mynd af neyðartöskunni sem þeir hér segja að eigi að vera á öllum heimilum.  Rauði krossinn heima hefur birt lista með sömu hlutum sem við eigum líka að eiga á vísum stað.  En það sniðugt að sýna þetta með þessum hætti !
Fórum svo í “The Japanese tea garden” en það er virkilega flottur garður í japönskum stíl inní Golden Gate park.  Úr því við vorum svo komin af stað með að skoða austurlenska menningu þá enduðum við daginn í China town sem er hér rétt fyrir ofan hótelið okkar.  Þar er urmull af veitingastöðum og búðum sem allar selja sama dótið.  Var ekkert yfir mig hrifin en maturinn er alltaf góður allavega !
Á morgun tökum við leigubíl og leggjum af stað niður ströndina - highway 1 áleiðis til Carmel sem sumir segja að sé einn fallegasti bærinn á leiðinni niður eftir en aðrir tala um tourist trap.  En það er allavega næsti viðkomustaður.  Kannski rekumst við á Clint Eastwood, gætum tekið spjall um það að vera bæjarstjóri í smábæ út á landi ;-)

Friday, August 24, 2018

Dagur 3.

Sem betur fer hafði ég verið forsjál og keypt miða út í Alcatraz á netinu fyrir löngu.  Við áttum því öruggt far ólíkt þeim mörgu sem með tárin í augunum stóðu í miðalúgunni og fengu ekki miða núna í morgun.  Allt löngu uppselt.  Reyndar var svo uppselt að þegar ég keypti miðana var ferðin í Alcatraz uppseld en við gátum komist með því að bæta við einni eyju í viðbót Angel island !  Það var auðvitað ekki annað hægt úr því sem komið var.  Lengdi daginn í blíðunni á sjónum (skítakuldi auðvitað)...

En við vorum mætt á bryggjuna fyrir klukkan 9 enda er þetta ekki afslöppunaferð kæru vinir :-)
Sigldum út til Alcatraz eyju sem er hér rétt fyrir utan.  Það er heilmikil upplifun að koma þangað en Alcatraz fangelsið sem þarna var rekið er löngu heimsfrægt og sérstaklega þeir flóttar sem þaðan voru reyndir enda er undankomuleiðin ekki beysin.  Þarna gengum við um allt en ef það er eitthvað sem heimamenn hér kunna þá er það að setja upp sýningar og söfn.  Það var sérkennilegt að sjá hversu pínulitlir klefarnir voru sem fangarnir voru hafðir í og ekki síður einangrunarklefarnir en vistin þar hefur vafalaust gert mennina hálf geðbilaða.  Alcatraz er auðvitað ekki annað en gróðursnauður klettur út í sjó en sú saga sem þarna er sögð gerir staðinn að einum mest sótta ferðamannastað í San Fransisco.
Sigldum síðan út  í Angel island sem er einn risastór þjóðgarður.  Þar er heilmikill gróður og fallegt að fara um.  Þar búa aftur á móti sárafáir en þarna var á árum áður aðlögunarstöð fyrir innflytjendur.   Fínn veitingastaður við höfnina þar sem hægt var að sóla sig í rólegheitum en þokan náði ekki þangað !

Þegar við komum aftur í land röltum við um hafnasvæði San Fransisco og eins og allir aðrir gera þá eyddum við mestum tímanum á “Pier 39”.  Það er heilmikið verslunar- og veitingahúsasvæði með leiktækjum og söfnum.  Þar eru líka sæljónin frægu sem halda þar til í hundraða tali.  Reyndar voru þau víst 1.701 þegar mest var.  Það er algjörlega frábært að fylgjast með þeim svona í návígi, látunum, slagsmálunum og óhljóðunum.  Virkilega skemmtilegur staður.
Löbbuðum síðan frá höfninni að Lombard street.  Það reyndist aðeins meira mál heldur en kortið gaf til kynna ! ! !    Hér eru bröttustu götur sem ég hef gengið í þéttbýli og við vorum við það að deyja þegar við komumst loks að Lombard.  Sá þá að við vorum lent fyrir neðan götuna svo labbið upp hana bættist við - ekki nema 259 tröppur kæru vinir !  En mikið sem þetta er flott !  Gatan er “the crookiest street in the States” og er það hverju orði sannara.  Gatan var semsagt of brött fyrir bíla og þá var gripið til þess ráðs að leggja hana í hlykkjum niður.   Alveg hreint merkilegt að sjá þetta!

Biðum síðan í óratíma eftir cable car sem kom svo loksins alveg hreint yfirfullur !  Fyrir hreina hundaheppni náðum við leigubíl sem keyrði okkur svo einmitt niður Lombard þannig að við náðum því líka.  Nokkuð skemmtilegt verð ég að segja !
Það voru ansi lúnir ferðalangar sem skreyddust upp á hótel í gærkvöldi eftir göngumaraþon dagsins.  Rétt nenntum á veitingastað hér rétt hjá og létum það duga - reyndar fann Lalli rakara sem er nauðsynlegt í okkar ferðum.  Það var víst nokkuð notalegt !

Thursday, August 23, 2018

Dagur 2.

Það er alltaf frekar snúið að fljúga svona langt frá sínu tímabelti þannig að við vorum frekar ósofin þegar við vöknuðum alltof snemma í dag.

Fórum niður á Union Square og keyptum miða í hop on/hop off rútuna.  Það finnst okkur oft þægilegt í nýjum borgum til að ná strax áttum.  Þetta reyndist hin fínasta ákvörðun enda heilmargt að sjá í þessari borg. Við ákváðum að byrja á Golden Gate brúnni.  Eini gallinn var að það var svo kalt í rútunni að það var mann lifandi að drepa.  Reyndar er svo kalt hérna að það er hreint furðulegt.  Heimamenn segja að þetta sé hitastigið sem er hér alla daga ársins. Skítkalt á morgnana og á kvöldin en aðeins skárra yfir daginn.  Nema maður sé niður við sjóinn hjá Golden Gate - þar er alltaf jafn kalt og skýjað !  Við erum ekki með föt til að vera í þessum kulda.  Ruglaðist nefnilega aðeins þegar ég kannaði hitastigið framundan hjá norsku vinunum á veðurvefnum - hélt það væri 35 stig yfir daginn en þá var ég víst að skoða San Fransisco í El Salvador!   Það er aðeins hlýrra þar en hér er.  En við létum okkur hafa það og fórum sem sagt út að Golden Gate brúnni.  Það er heilmikil upplifun að sjá þessa risastóru og glæsilegu brú sérstaklega þegar maður veit að hún er byggð á milli árann 1933 - 1937.  Það hefur verið meiriháttar afrek á sínum tíma.  Eftir að hafa stoppað við brúna og labbað þar út um allt tókum við rútu yfir til Sausalito sem er lítill bær hinum megin við Golden Gate.  Náðum sem sagt að keyra yfir :-)  Í Sausalito var sólskin og hið fínasta veður - veðrið hérna er reyndar alveg hreint með ólíkindum. ! ! !   Þarna var hin huggulegasta strandgata, veitingastaðir og búðir svo þarna var alveg hægt að eyða drjúgum tíma.
Hoppuðum úr rútunni á leiðinni til baka og stoppuðu í Height Ashbury.  Það er afskaplega skemmtilegt hverfi sem er gaman að heimsækja.  Þarna var miðstöð blómabarnanna á sínum tíma og 1967 var árið sem allt skeði.  Ennþá eymir eftir að ljóma þeirra ára og “ilmi” á mörgum stöðum.  Veggmyndir af stjörnum þess tíma eru þarna víða, Jimi Hendrix og Janis Joplin þar fremstar í flokki.  Þarna myndi ég klárlega versla fötin mín ef ég væri Páll Óskar - allavega tónleika dressin en sá stíll er þarna í mörgum búðum.
Þegar við fórum aftur til baka var ekki annað hægt en að fara í búðir á Union Square til að versla peysu  og jakka svo ég myndi ekki forkelast á fyrsta degi.  Flíspeysa er algjört þarfaþing í þessari borg þó um hásumar sé.   Reyndar sagði einn leigubílstjórinn í dag að núna væri “fall” hér í borg en síðan kæmi “summer” in september.  Ég er enn að reyna að skilja þetta.....  Cheasecake factory í kvöld á toppi Macy´s var ansi skemmtileg upplifun.  Við erum að byrja að skilja hvers vegna útlendingarnir bíða með glöðu geði allt upp í hálftíma eftir borði á Ölverk - það er af því að hér þykir það eðlilegt að þurfa að bíða - á öllum veitingastöðum og engum finnst það neitt mál !  ! !