Margir morgnar hafa verið notaðir til símtala heim þar sem nú er verið að undirbúa Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég hef vegna hans átt mörg símtöl við aðila vítt og breytt um landið vegna stjórnarkjörs sem þarna mun fara fram. Hefði óneitanlega verið betra að vera með minni tímamismun akkúrat núna en þetta gengur nú samt alveg bærilega. Í morgun sat ég í sólbaði á sundlaugarbakka í Mariposa á meðan ég ræddi við nokkra heima í Fróni. Held að veðrið hafi verið aðeins betra hér :-)
En við lögðum af stað fyrir hádegi inn í Mariosa Grove sem er hluti af Yosemite þjóðgarðinum en um 30 mílum hér suð/vestur af. Þetta átti nú ekki að vera lengi farið en bæði var vegurinn kræklóttur og seinfarinn og eins var heilmikil umferð. Greinilega allir á sömu leið og við. Þegar við áttum eftir eina 8 kílómetra að garðinum þá stoppaði röðin alveg. Smám saman mjakaðist hún áfram og á næstum því klukkutíma tókst okkur að komast að innganginum í garðinn. Þar tók nú ekki betra við því bílastæðin voru öll full og þar af leiðandi lokuð og okkur og fjöldanum öllum öðrum því meinaður aðgangur að garðinum. Sagt að fara til nærliggjandi bæjar og bíða þar hvort að stæðin myndu opna aftur. Við þorðum því nú alls ekki því þá myndi öll röðin fylla stæðin áður en við kæmum til baka ef þau opnuðu. Lögðum þvi út í kanti þar sem voru fyrir tveir bílar með fjölskyldu frá Suður Ameríku. Ákváðum að vera í samfloti og eftir um hálftíma bið í brakandi sólinni og hitanum keyrðum við til baka og hittum á óskastund. Opin bílastæði ! Það hefði nú verið frekar fúlt að þurfa að fara heim án þess að heimsækja Mariposa Grove.
Sá staður er heimkynni trjá sem heita the Giant Segoia sem eru stærstu lifandi verur á jarðarkringlunni. Miklu stærri og þyngri til dæmis en stærstu hvalir. Þetta eru risastór ævagömul tré sem þarna hafa vaxið um aldir. Elstu trén eru talin vera allt að 3.000 ára gömul. Þau hæstu eru rétt um 100 metrar og ummála þeirra stærstu er um 30 metrar. Það er algjörlega meiriháttar að upplifa nándina við þessi tré og ímynda sér um leið hvernig heimurinn leit út þegar þeirra fræ tók að spíra og tréð tók að vaxa. Löngu áður en til dæmis Jesú kom til sögunnar. Alveg hreint stórmerkilegt. Svo er þetta alveg hreint yndislegur staður. Við gengum þarna stóran hring um garðinn upp og niður hóla og hæðir og dáðumst að umhverfinu.
Þarna hittum við dönsk hjón sem voru í svipaðri ferð og við svo við gátum deilt reynslusögu og gefið góð ráð, gaman að því. En enn skemmtilegra var þó að rekast á ungt par sem gaf sig á tal við okkur þegar þú heyrðu okkur spjalla saman. Þá voru þetta Spánverjar sem eru búin að búa í Vík í fjógur ár og vinna í Icewear. Það var alveg meiriháttar að rekast svona á þau þarna. Einu Íslendingana sem við höfum fundið hér í Kalifornú, ef Íslendinga skyldi kalla :-)
Aftur á móti heyrði eldri maður okkur tala saman og hann kom líka og spurði hvaða við værum, þegar við sögðum honum það þá gargaði hann yfir allan hópinn “they are Icelandic “. Þá vorum hann og frún að plana stopover á Íslandi á næstunni og vildi hann vita allt um Reykjanesið því hann ætlaðoi nú ekki mikið lengra ! En svo ég segi það aftur þá er annar hvor maður annað hvort nýkominn eða að fara til Íslands - markaðsherferðin er að svínvirka svo ég held að bankarnir ættu nú að opna fyrir lán til hótelbygginga aftur !
Eftir Mariposa Grove keyrðum við eftr Highway 49 sem kallast gullgrafaravegurinn. Virkilega skemmtilegt leið en miklu fjölbreyttari og erfiðari en við áttum von á. Upp og niður fjöll og dali í mikilfenglegu landslagi.
Enduðum í smábæ sem heitir Sonora. Einn af gullgrafarabæjunum sem frægir eru hér um slóðir. Römbuðum á ágætis hótel í miðbænum sem átti laust herbergi. Það var heppilegt :-)
Á morgun ætlum við að skoða bæinn og kíkja á Columbia Historical State town áður en við keyrum til San Jose þar sem við ætlum að vera næstu tvær nætur !
Gleymdi reyndar að minnast á það að hitinn hér er orðinn ansi vígalegur 37 stig í dag og brakandi sól var ansi mikið !