Thursday, August 23, 2018

Dagur 2.

Það er alltaf frekar snúið að fljúga svona langt frá sínu tímabelti þannig að við vorum frekar ósofin þegar við vöknuðum alltof snemma í dag.

Fórum niður á Union Square og keyptum miða í hop on/hop off rútuna.  Það finnst okkur oft þægilegt í nýjum borgum til að ná strax áttum.  Þetta reyndist hin fínasta ákvörðun enda heilmargt að sjá í þessari borg. Við ákváðum að byrja á Golden Gate brúnni.  Eini gallinn var að það var svo kalt í rútunni að það var mann lifandi að drepa.  Reyndar er svo kalt hérna að það er hreint furðulegt.  Heimamenn segja að þetta sé hitastigið sem er hér alla daga ársins. Skítkalt á morgnana og á kvöldin en aðeins skárra yfir daginn.  Nema maður sé niður við sjóinn hjá Golden Gate - þar er alltaf jafn kalt og skýjað !  Við erum ekki með föt til að vera í þessum kulda.  Ruglaðist nefnilega aðeins þegar ég kannaði hitastigið framundan hjá norsku vinunum á veðurvefnum - hélt það væri 35 stig yfir daginn en þá var ég víst að skoða San Fransisco í El Salvador!   Það er aðeins hlýrra þar en hér er.  En við létum okkur hafa það og fórum sem sagt út að Golden Gate brúnni.  Það er heilmikil upplifun að sjá þessa risastóru og glæsilegu brú sérstaklega þegar maður veit að hún er byggð á milli árann 1933 - 1937.  Það hefur verið meiriháttar afrek á sínum tíma.  Eftir að hafa stoppað við brúna og labbað þar út um allt tókum við rútu yfir til Sausalito sem er lítill bær hinum megin við Golden Gate.  Náðum sem sagt að keyra yfir :-)  Í Sausalito var sólskin og hið fínasta veður - veðrið hérna er reyndar alveg hreint með ólíkindum. ! ! !   Þarna var hin huggulegasta strandgata, veitingastaðir og búðir svo þarna var alveg hægt að eyða drjúgum tíma.
Hoppuðum úr rútunni á leiðinni til baka og stoppuðu í Height Ashbury.  Það er afskaplega skemmtilegt hverfi sem er gaman að heimsækja.  Þarna var miðstöð blómabarnanna á sínum tíma og 1967 var árið sem allt skeði.  Ennþá eymir eftir að ljóma þeirra ára og “ilmi” á mörgum stöðum.  Veggmyndir af stjörnum þess tíma eru þarna víða, Jimi Hendrix og Janis Joplin þar fremstar í flokki.  Þarna myndi ég klárlega versla fötin mín ef ég væri Páll Óskar - allavega tónleika dressin en sá stíll er þarna í mörgum búðum.
Þegar við fórum aftur til baka var ekki annað hægt en að fara í búðir á Union Square til að versla peysu  og jakka svo ég myndi ekki forkelast á fyrsta degi.  Flíspeysa er algjört þarfaþing í þessari borg þó um hásumar sé.   Reyndar sagði einn leigubílstjórinn í dag að núna væri “fall” hér í borg en síðan kæmi “summer” in september.  Ég er enn að reyna að skilja þetta.....  Cheasecake factory í kvöld á toppi Macy´s var ansi skemmtileg upplifun.  Við erum að byrja að skilja hvers vegna útlendingarnir bíða með glöðu geði allt upp í hálftíma eftir borði á Ölverk - það er af því að hér þykir það eðlilegt að þurfa að bíða - á öllum veitingastöðum og engum finnst það neitt mál !  ! !

No comments:

Post a Comment