Saturday, August 25, 2018

Dagur 4.

Eina klúður ferðaskipuleggjarans enn sem komið er var í dag.  Ætluðum í “Museum of ice cream” sem er hér við Union Square.  Vorum mætt um leið og það opnaði til að losna við röðina en það skipti nú litlu máli!  Do you have a reservation? Var spurt um leið og við komum inn og skömmustuleg varð ég að viðurkenna að svo var ekki.  Þar með var málið dautt.  Inná þetta flotta safn er eingöngu selt á netinu og það er alltaf uppselt - ALLTAF !   Ekki nokkur einasti möguleiki að reyna að sannfæra afgreiðslufólkið um að það væri afar mikilvægt að við kæmumst inn verandi með ísgerð á Íslandi og allt það!
  Þannig að við rétt gátum kíkt á dýrðina í anddyrinu áður en við hurfum á braut.  Ferlega fúlt - en maður getur ekki vitað allt er það ? ? ?   En mikið hrikalega er þetta vinsælt - vona að systkini mín lesi þetta og sjái möguleika Kjörís í Hveragerði á að slá í gegn :-)

Ráfuðum aðeins um miðbæinn, tókst að versla aðeins áður en við fórum út í Golden Gate park.  Það var sól og fínt veður í miðbænum en kalt og þoka út í Golden Gate.  Þetta er alveg hreint furðulegt!  Svo setja þeir flottustu garða bæjarins út við sjóinn þar sem er alltaf þoka !  En í Golden Gate fórum við í vísindasafnið þeirra hér í Californíu.  Nú erum við búin að ferðast svo víða og sjá svo mörg svona söfn að þau fara öll að renna saman.  Samt var þetta virkilega flott og heillandi að sjá hversu vel það var uppsett og fræðandi.  Fyrir okkur var jarðskjálftahermirinn náttúrulega alveg hreint meiriháttar og eins upplýsingarnar um jarðskjálftana sem hér hafa orðið.  Tók ansi góða mynd af neyðartöskunni sem þeir hér segja að eigi að vera á öllum heimilum.  Rauði krossinn heima hefur birt lista með sömu hlutum sem við eigum líka að eiga á vísum stað.  En það sniðugt að sýna þetta með þessum hætti !
Fórum svo í “The Japanese tea garden” en það er virkilega flottur garður í japönskum stíl inní Golden Gate park.  Úr því við vorum svo komin af stað með að skoða austurlenska menningu þá enduðum við daginn í China town sem er hér rétt fyrir ofan hótelið okkar.  Þar er urmull af veitingastöðum og búðum sem allar selja sama dótið.  Var ekkert yfir mig hrifin en maturinn er alltaf góður allavega !
Á morgun tökum við leigubíl og leggjum af stað niður ströndina - highway 1 áleiðis til Carmel sem sumir segja að sé einn fallegasti bærinn á leiðinni niður eftir en aðrir tala um tourist trap.  En það er allavega næsti viðkomustaður.  Kannski rekumst við á Clint Eastwood, gætum tekið spjall um það að vera bæjarstjóri í smábæ út á landi ;-)

No comments:

Post a Comment