Thursday, August 30, 2018

Dagur 8

San Simeon með sína örfáu íbúa (443) kom á óvart.  Skemmtilegur strandbær en svo sem fátt annað þar nema Hearst kastalinn.Hann heimsóttum við í dag og eyddum þar góðum tíma.  Bæði af því að þar er margt að sjá og skoða en einnig af því að það var svo hrikalega gott veður og ég fann svo góðan hægindastól til að sóla mig í.  Er sannfærð um að stórstjörnur fyrri tíma lágu einmitt svona einhvers staðar á fjölmörgum pöllum kastalans og nutu sólar.  William Randolph Hearst byggði þennan risastóra og yfirmáta skreytta kastala á árunum 1919 til 1947.  Átti upphaflega að vera lítið sveitasetur fyrir fjölskylduna en hann virðist hafa verið mikil eyðslukló eins og sjá má víða um landareigninga.  Hér hafði hann til dæmis dýragarð með alls konar framandi dýrum sem sum hver eru hér enn.  Til dæmis ganga hjarðir zebrahesta með nautgripunum hér um hlíðarnar.  Sáum einmitt hóp zebrahesta á leiðinni hingað upp eftir.   WRH hefur augljóslega verið hrifinn af fallegum og verðmætum munum því þeir eru út um allt í höllinni. Allt frá egpypskum styttum sem eru yfir 3.000 ára gamlar og í veggteppi sem búin voru til af Lúðvík fjórtanda í Frakklandi.  Þarna er ekki hægt að fara um nema með leiðsögumanni og okkar maður var einstaklega skemmtilegur.  Varðandi söfnunaráráttu WRH  þá setti hann hana í gott samhengi.  Ef að einstaklingur ætlar að eignast jafn marga listmuni og RWH gerði á sínni ævi þarf viðkomandi að hefjast handa við fæðingu og kaupa á hverjum einasta degi, alla daga ársins 10 listmuni.  Þegar viðkomandi verður níræður hefur hann náð sama fjölda og auðkýfingurinn keypti á sinni ævi.  Það er óneitanlega svolítið skrýtið að sjá ómetanleg listaverk annarra þjóða komin hér upp á vegg í kastala á fjallstoppi í Kaliforníu.  Kannski rétt að minnast líka á það að sundlaugar þessa kastala eru klárlega eitt það flottasta sem ég hef séð.  Útisundlaugin eða Neptúnusar laugin er alveg hreint dásamleg í rómönskum stíl.  Innilaugin er líka dásamlega falleg en allt öðru vísi.  Flísalögð í hólf og gólf og meira að segja sundlaugarbotninn glitrar á móti manni !

En kastalinn er afar fallegur, garðarnir í kring einstakir og virkilega gaman að sjá þetta allt saman.  Lárusi varð reyndar fljótt hálfpirraður á gegndarlausum flottheitunum og sagðist hreinlega verða kommúnisti þegar hann yrði vitni að svona bruðli.  Ekki er það nú gott ! 

En eftir Hearst kastalann fórum við niður að strönd og gengum út á risastórt “boardewalk” sem þar er eða bryggja lengst út í sjó.  Þar voru nokkrir að veiða enda sást til margra ansjósuvaða í sjónum og það boðaði komu  komu stærri fiskanna.  Einnig sáum við otra að leik í þarabreiðu út í sjó og dökka pelikana sem fyrir nokkrum árum voru í útrýmingarhættu en eru nú kominir fyrir vind.  Við ætluðum aldrei að tíma að leggja af stað út á þjóðvegina aftur enda erum við núna að færa okkur frá sjónum sem er svo yndislegur hérna niður frá 

Keyrðum síðan sem leið lá um sveitirnar og upp Kaliforníu aftur.  Í gegnum frjósamar sveitir þar sem risavaxnir akrar teygja sig upp um allar hlíðar.  Þarna er mikið ræktað af vínþrúgum og fjöldi vínræktanda á leiðinni.  Um tíma keyrðum við um algjört flatlendi sem gat auðveldlega komið inn hjá manni þunglyndi.  En það var nú sem betur fer ekki langur spotti !  Hér er aftur á móti framleitt grænmeti á ökrum sem eru af þeirri stærð að maður getur varla ímyndað sér það.  Héðan streymir brokkolí, salat, avocado, alls konar ber og fleiri jarðarávextir út um allan heim. 

Erum nú komin til bæjar sem heitir Gilroy sem kallar sig hvítlaukshöfuðborg heimsins.   Hér er haldin risavaxin hvítlaukshátíð einu sinni ári sem er fjölsótt skilst mér.  En bærinn er nú samt  helst frægur fyrir risavaxna verslunarmiðstö sem hér er.  Þar með vitið þið hvað ég ætla að gera á morgun :-)

Næsti viðkomustaður er Mariposa sem er í grennd við Yosemite þjóðgarðinn ! 

No comments:

Post a Comment