Friday, August 31, 2018

Dagur 10

Nennum ekki lengra á næstunni og erum því að reyna að fá hótelinu framlengt í þrjá daga.  Erum þegar komin með kvöldið í kvöld hér í Mariposa og einstaklega almennileg kona í móttökunni er búin að hringja í öll hótel í 30 km radíus og kanna hvort þau eigi laust handa okkur næstu nótt líka.  Hér er aftur á móti allt uppbókað alls staðar, labour day helgi og allir gististaðir fullir.   En við vonum það besta !

Hér þýddi ekkert annað en að drífa sig þokkalega snemma á fætur því við ætluðum í Yosemite þjóðgarðinn í dag.  Héðan er um klukkutíma akstur inn í þjóðgarðinn en þetta er einstaklega skemmtileg leið um djúpa dali með skógivaxnar hlíðar.  Þar mátti víða sjá ummerki skógareldanna sem hér hafa geysað undanfarin ár.  Sérstaklega fannst manni sorglegt að sjá íbúðarhús á nokkrum stöðum þar sem ekkert stóð eftir nema skorsteinninn og bárujárnshrúga.  Hér eru húsin undantekningarlaust út timbri og byggingarlagið er nú ekki sérlega merkilegt.  Síðan eru risastór tré ofan í húsunum þannig að þetta umhverfi er auðvitað ekkert annað en áskrift á stórslys.  Eldarnir í ár voru mun minni hér en í fyrra þó að þeir hefðu verið meira í fréttunum sökum þess hversu illa gekk að slökkva þá er okkur sagt.  En hér eru gríðarleg flæmi brunnin og skógurinn víða illa farinn.  Sá reynda á upplýsingaskilti í dag að indíánarnir sem hér bjuggu í árþúsundir brenndu stór svæði viljandi til að búa til akra og opna skógana.  Vinkona okkar í gestamóttökunni segir að þetta séu algjörir aular sem núna stýra hér því það verði að grisja þessa skóga miklu miklu meira en gert er til að hefta útbreiðslu skógarelda. 

En aftur að Yosemite sem er algjörlega stórkostlegur staður.  Það fyrsta sem maður sér er El Capitan, gríðarlega hátt þverhnípt fjall afar nálægt veginum þegar komið er inn í dalinn.  Við strönduðum þar lengi því einhvern veginn hélt maður að þetta gæri ekki orðið fallegra,  En auðvitað gat að það !  Inni í dalnum taka við dásamleg svæði þar sem gönguleiðir eru upp um öll fjöll miserfiðar og skógarstígar víða.  Við gengum upp að Vernon fossunum, eða réttara sagt Lárus kláraði gönguna upp þessar ferlega bröttu brekkur upp að fossunum en ég er alltaf svo hrædd um að hnéð gefi síg á leiðinni niður svo ég hætti rétt áður en klifrið tók við.  Naut mín í staðinn í sól- og fótabaði við ána í hreint alveg yndislegu veðri og umhverfi. 

Eftir að hafa þvælst um dalinn þveran og endilegan með YARTS sem eru rútur sem þarna flytja mann á milli staða ákváðum við að keyra upp að Tunnel view sem er útsýnisstaður hér ofan við dalinn þar sem hægt er að sjá hvernig fjöllin umlykja þennan dal. Það var einstakt að sjá þetta.  Enda erum við ekki að tala um nein venjuleg fjöll hér heldur eru hæstu tindar 10.700 fet sem eru tæpir 3.000 metrar held ég.   Sumir klettaveggirnir eins og El Capitan eru um kílómetri á hæð og önnur fjöll eins og Half Doma miklu miklu hærri.   Úr því að við vorum nú lögð af stað upp í fjöllin þá ákváðum við að keyra til Glacier Point sem er um klukkutíma akstur upp úr dalnum.  Það var snúinn og kræklóttur fjallvegur sem opnaði fyrst í gær sökum skógareldanna sem þarna hafa brunnið víða í kringum veginn.  Enn rauk meira að segja úr nokkrum trjám þegar við keyrðum framhjá.   En leiðin virtist endalaus en hún margborgaði sig þegar við sáum útsýnið yfir Yosemite þegar við komum loksins á leiðarenda.  Þarna er maður í um 1.000 metra hæð með lóðrétt bjargið beint fyrir neðan sig og útsýni beint ofan í dalinn og á göngustígana og fossana og fjöllin í Yosemitel. Algjörlega stórkostlegt.   

Fengum reyndar algjört áfall þarna á brúninni.   Þarna var hópur af ungu fólki sem hegðaði sér alveg eins og blábjánar á þessum hættulega stað.  Bara að rifja upp að það var þverhnípt þarna niður og 1.000 metra fall.  Einn úr þessum hópi hoppaði uppá grindverkið sem þarna var til að taka myndir.  Ein stúlkan sat á brún grindverksins til að ná myndum.  En það tók nú alveg steininn úr þegar hópurinn hvatti eina stelpuna til að fara fram á brún á syllu sem þarna skagar þónokkuð fram af berginu og þar stóð hún og lét taka af sér myndir áður en hún settist, mjakaði sér fremst og dinglaði svo löppunum.  Við vorum reyndar alveg sannfærð um að þarna yrðum við vitni að banaslysi.  Þegar þessi unga dama hafði svo komið sér til baka, tóku aðrir við og og fífluðust á syllunni.  Hittum þarna eldri konu sem sagðist búa í garðinum og hún leitaði logandi ljósi að landverði svo þetta yrði stoppað en hún sagði að eitt árið núna nýlegu hefðu 17 manns fallið fram af Glacier Point, viljandi og óviljandi.  En mikið sem okkur fannst óþægilegt að verða vitni að þessum fáránlega hálvitagangi fólks sem átti að heita fullorðið. 

Rétt náðum heim á hótel í ljósaskiptunum.  HIttum vinkonu okkar í móttökunni sem vill allt fyrir okkur gera.  Hún reyndar telur okkur vera frekar undarlega ferðamenn þar sem við vitum ekki hvert við ætlum næst - en ég er samt með ákveðna hugmynd sem ég hef verið að skoða og það er að fara á slóðir gullgrafara og kúreka og keyra næst highway 49 eða gullgrafara leiðina sem er víst seinfarin og snúin en leiðir mann í gegnum fullt af smábæjum sem byggðust upp í kringum gullæðið mikla.  Erum held ég hætt við Napa dalinn.  Viljum frekar vera hér í óbyggðunum ef óbyggðir skyldi telja. 

Ætlum að vera hér í Mariposa og nágrenni á morgun.  Skoða bæinn, heimsækja bæjarhátíðina (county fair) sem hér er í tilefni af labour day og ætlum svo að fara og skoða risavöxnu trén sem eru í 20 mílna fjarlægð.  Miklu rólegra sem sagt á morgun.


No comments:

Post a Comment