Sem betur fer hafði ég verið forsjál og keypt miða út í Alcatraz á netinu fyrir löngu. Við áttum því öruggt far ólíkt þeim mörgu sem með tárin í augunum stóðu í miðalúgunni og fengu ekki miða núna í morgun. Allt löngu uppselt. Reyndar var svo uppselt að þegar ég keypti miðana var ferðin í Alcatraz uppseld en við gátum komist með því að bæta við einni eyju í viðbót Angel island ! Það var auðvitað ekki annað hægt úr því sem komið var. Lengdi daginn í blíðunni á sjónum (skítakuldi auðvitað)...
En við vorum mætt á bryggjuna fyrir klukkan 9 enda er þetta ekki afslöppunaferð kæru vinir :-)
Sigldum út til Alcatraz eyju sem er hér rétt fyrir utan. Það er heilmikil upplifun að koma þangað en Alcatraz fangelsið sem þarna var rekið er löngu heimsfrægt og sérstaklega þeir flóttar sem þaðan voru reyndir enda er undankomuleiðin ekki beysin. Þarna gengum við um allt en ef það er eitthvað sem heimamenn hér kunna þá er það að setja upp sýningar og söfn. Það var sérkennilegt að sjá hversu pínulitlir klefarnir voru sem fangarnir voru hafðir í og ekki síður einangrunarklefarnir en vistin þar hefur vafalaust gert mennina hálf geðbilaða. Alcatraz er auðvitað ekki annað en gróðursnauður klettur út í sjó en sú saga sem þarna er sögð gerir staðinn að einum mest sótta ferðamannastað í San Fransisco.
Sigldum síðan út í Angel island sem er einn risastór þjóðgarður. Þar er heilmikill gróður og fallegt að fara um. Þar búa aftur á móti sárafáir en þarna var á árum áður aðlögunarstöð fyrir innflytjendur. Fínn veitingastaður við höfnina þar sem hægt var að sóla sig í rólegheitum en þokan náði ekki þangað !
Þegar við komum aftur í land röltum við um hafnasvæði San Fransisco og eins og allir aðrir gera þá eyddum við mestum tímanum á “Pier 39”. Það er heilmikið verslunar- og veitingahúsasvæði með leiktækjum og söfnum. Þar eru líka sæljónin frægu sem halda þar til í hundraða tali. Reyndar voru þau víst 1.701 þegar mest var. Það er algjörlega frábært að fylgjast með þeim svona í návígi, látunum, slagsmálunum og óhljóðunum. Virkilega skemmtilegur staður.
Löbbuðum síðan frá höfninni að Lombard street. Það reyndist aðeins meira mál heldur en kortið gaf til kynna ! ! ! Hér eru bröttustu götur sem ég hef gengið í þéttbýli og við vorum við það að deyja þegar við komumst loks að Lombard. Sá þá að við vorum lent fyrir neðan götuna svo labbið upp hana bættist við - ekki nema 259 tröppur kæru vinir ! En mikið sem þetta er flott ! Gatan er “the crookiest street in the States” og er það hverju orði sannara. Gatan var semsagt of brött fyrir bíla og þá var gripið til þess ráðs að leggja hana í hlykkjum niður. Alveg hreint merkilegt að sjá þetta!
Biðum síðan í óratíma eftir cable car sem kom svo loksins alveg hreint yfirfullur ! Fyrir hreina hundaheppni náðum við leigubíl sem keyrði okkur svo einmitt niður Lombard þannig að við náðum því líka. Nokkuð skemmtilegt verð ég að segja !
Það voru ansi lúnir ferðalangar sem skreyddust upp á hótel í gærkvöldi eftir göngumaraþon dagsins. Rétt nenntum á veitingastað hér rétt hjá og létum það duga - reyndar fann Lalli rakara sem er nauðsynlegt í okkar ferðum. Það var víst nokkuð notalegt !
No comments:
Post a Comment