Tuesday, September 4, 2018

Dagur 15

Það sem situr eftir núna þegar við erum að yfirgefa Kaliforniu er hvað þetta er fjölbreytt og skemmtilegt svæði og hve einfalt og öruggt það er að vera hér.  Allir sem við höfum hitt hafa verið hjálpsamir og ræðnir og flestir hafa sýnt alveg hreint ótrúlegan áhuga á Íslandi.  Það eru ekki mörg ár síðan að fáir vissu hvar Ísland var og hvað þá að nokkrum dytti til hugar að eyða fríinu sínu heima a Fróni.  Núna hittum við varla nokkurn mann sem ekki vissi helling um landið og annað hvort ætlaði að fara til Íslands, langaði til Íslands eða átti ættingja og/eða vini sem voru nýbúnir að vera á Íslandi.  Við eiginlega erum hætt að skilja þetta.  Til dæmis á veitingahúsinu hér í San Jose í kvöld.  Þá sitjum við einfaldlega og spjöllum saman og erum ekki að skipta okkur af nokkrum manni, þegar maðurinn á næsta borði hallar sér að okkur og spyr hvort við séum frá Íslandi.  Þegar við játuðum því lifnaði aldeilis yfir honum því hann sagðist fljúga regluega á milli Kaliforníu og Ítalíu og oft næði hann að dáðst að Íslandi þegar flogið væri yfir landið.  Hann sagðist svo sannarlega ætla að stoppa fljótlega. Við fórum auðvitað með vel æfða ræðu um gæði landsins, fegurð og glæsileika svo hann hlýtur að bóka fljótlega.  Við ættum reyndar að fá afslátt af flugi miðað við landkynninguna sem við höfum stundað hér !

Vorum á bændamarkaði í gær og þar var hópur af strákum frá Mexikó að vinna.  Um leið og þeir vissu að við værum frá Íslandi barst talið að knattspyrnu og landsliðinu sem þeir höfðu fylgst með á EM, heldur minna á HM enda “gekk ykkur ekkert vel þá” !  Í Columbia hittum við hjón sem spölluðu við okkur eins og við hefðum þekkst um árabil. Þau ráku búðina og vildu vita allt um Ísland, þau reyndar vissu helling enda að plana draumaferðina sína til þessarar spennandi eyju í norðri. 

En mikið rosalega er mikill munur á samfélögunum hér.  Upp í fjöllunum býr fólk við augljóslega miklu verri kjör en hér niður á ströndinni.  Í þessum smábæjum elska allir repúblíkana og Trump er dýrkaður og dáður. Fólk raunverulega telur hann vera frábæran forseta og að gera frábæra hluti fyrir landið.  Vinkona okkar í kjörbúðinni var aftur á móti sú eina sem hvíslaði að okkur að hún væri nú ekki hrifin af forsetanum. Hún sagði okkur líka að þarna í fjöllunum væru afar margir mjög þröngsýnir og fullt af fólki hefði ekki einu sinni komið út fyrir sýsluna á ævinni.  Sjóndeildarhringurinn væri því óneitanlega  afar þröngur.    

Borginar eru óneitanlega dásamlegar, lifandi, fjölbreyttar og fullar af tækifærum til að gera góða hluti og skemmtilega.  En þegar komið er út á land þá breytist umhverfið og mannlífið verður allt annað. Okkur finnst ekki síður skemmtilegt að þræða þessa litlu bæi og reyna að kynnast mannlífinu og því hvernig hjartað slær á þessum stöðum.  Við höfum líka verið svo heppin að ná að ræða við fullt af fólki og heyra hvernig lifið og tilvera er á þessum stöðum.  Þar höfum við grætt mikið á því að vera Íslendingar enda flestir sem segja það sama:  “Oh, are you from Iceland, how wonderful !  You are the first people we meet from Iceland” .....  og þá byrjar ballið :-)

Þetta verður síðasta færslan þar til okkur dettur til hugar að fara eitthvað annað.

Eitt að lokum:  Ég heyrði einn góðan í gær um San Fransisco.  Mark Twain sá gríðarlega góði rithöfundur sagði einu sinni að kaldasti vetur sem hann hefði upplifað hefði verið sumar í San Fransisco !  Það eru orð að sönnu :-)

Breytir því samt ekki að San Fransisvo er gríðarlega skemmtileg borg ! !


Monday, September 3, 2018

Dagur 13

Sonora er skemmtilegur lítill bær við Highway 49.  Við fundum hótel við aðalgötuna í gömlu húsi og ákváðum að gista þar.  Ágætt alveg þó að það aldurinn sjáist alveg.  Þarna var túpusjónvarp á herberginu sem okkur fannst ansi smellið.  Reyndar var betra efni í boði í túpunni en flatskjáunum hingað til.   Ég horfi ekki á sjónvarp á hótelum en betri helmingurinn hefur gaman að því.  Hingað til hefur tímanum verið varið í að horfa á auglýsingar í ofgnótt.  Svo mjög að “tummy tucker” er skyndilega orðið hið mesta þarfaþing og Crepe erase hrukkukremið er heimilisvinur.  Myndi reyndar aldrei þola að horfa á sjónvarpsstöðvarnar hér með þessum  endalausu auglýsingum ! ! !

En við fórum eins og alltaf út að borða í gærkvöldi sem er ekki í frásögur færandi nema að við biðum eftir borði á veitingastaðnum í vel ríflega 30 mínútur.  Það gerðu svo til allir og fannst það greiniega ekkert tiltökumál.  Við höfum lent í þessu áður hér úti og það sem mér finnst svo skemmtilegt er hversu allir eru hressir í biðröðinni. Að bíða þykir sjálfsagt og ekki nokkur maður ergir sig á slíku. Þetta skýrir að stóru leyti held ég hversu sáttir erlendir gestir Ölverks hjá Laufeyu og Elvari eru þó að þar þurfi stundum að bíða eftir borði !

En eftir að hafa rölt aðeins um miðbæ Sonora og kíkti í gamlar búðir þá keyrðum við áfram til bæjar þarna rétt lengra inn í landinu sem heitir Columbia. Þarna er best varðveitta götumynd Bandaríkjanna, lifandi safn sem er hluti af bænum.  Í húsunum er alvöru rekstur eins og kom í ljós þegar við alveg óvart lentum á spjalli við hjónin sem eiga kjörbúðina þarna .
Þarna er ferðamannatíminn fjórir tímar á ári og þau hafa eingöngu opið þá.  Þarna er hark um ferðamennina rétt eins og við þekkjum að heiman.  Þarna var gríðarlega heitt eða um 38 gráður.  Samt var þetta að sögn ekkert svo slæmt því þarna fer hitinn oft yfir 42 gráður á sumrin.
California býður upp á alla veðráttu, niður í San Fransisco er alltaf frekar nöturlegt, þoka og kaldara en allst staðar annars staðar.  Í staðinn er allt eins veður þar, vetur sem sumar.  Ströndin þar fyrir neðan er frískleg og kalt á kvöldin.  En eftir því sem innar dregur hitnar á sumrin og getur farið vel yfir 40 gráður en í staðinn er ansi kalt á veturnar og getur snjóað.

Eftir gott stopp í Columbia ákváðum við að bruna til San Jose þar sem við ætlum að liggja í leti fram að flugferðinni heim.  Við reyndar gátum ekkert brunað á hraðbrautinni þar sem umferðin rétt silaðist áfram og við vorum rúma 4 og hálfan tíma að keyra þessa leið sem undir eðlilegum kringumstæðum tekur um 2 og hálfan tíma.

Komum til Sunnyvale sem er rétt vð San Jose á hótelið okkar sem býr svo vel að hafa gott sundlaugarsvæði, heita potta og slíkt.  Nú verður það óspart notað fram að brottför.

Sunday, September 2, 2018

Dagur 12

Margir morgnar hafa verið notaðir til símtala heim þar sem nú er verið að undirbúa Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég hef vegna hans átt mörg símtöl við aðila vítt og breytt um landið vegna stjórnarkjörs sem þarna mun fara fram.  Hefði óneitanlega verið betra að vera með minni tímamismun akkúrat núna en þetta gengur nú samt alveg bærilega.  Í morgun sat ég í sólbaði á sundlaugarbakka í Mariposa á meðan ég ræddi við nokkra heima í Fróni.  Held að veðrið hafi verið aðeins betra hér :-)

En við lögðum af stað fyrir hádegi inn í Mariosa Grove sem er hluti af Yosemite þjóðgarðinum en um 30 mílum hér suð/vestur af.  Þetta átti nú ekki að vera lengi farið en bæði var vegurinn kræklóttur og seinfarinn og eins var heilmikil umferð.  Greinilega allir á sömu leið og við. Þegar við áttum eftir eina 8 kílómetra að garðinum þá stoppaði röðin alveg.   Smám saman mjakaðist hún áfram og á næstum því klukkutíma tókst okkur að komast að innganginum í garðinn.  Þar tók nú ekki betra við því bílastæðin voru öll full og þar af leiðandi lokuð og okkur og fjöldanum öllum öðrum því meinaður aðgangur að garðinum.  Sagt að fara til nærliggjandi bæjar og bíða þar hvort að stæðin myndu opna aftur.  Við þorðum því nú alls ekki því þá myndi öll röðin fylla stæðin áður en við kæmum til baka ef þau opnuðu.  Lögðum þvi út í kanti þar sem voru fyrir tveir bílar með fjölskyldu frá Suður Ameríku.  Ákváðum að vera í samfloti og eftir um hálftíma bið í brakandi sólinni og hitanum keyrðum við til baka og hittum á óskastund.  Opin bílastæði !   Það hefði nú verið frekar fúlt að þurfa að fara heim án þess að heimsækja Mariposa Grove.

Sá staður er heimkynni trjá sem heita the Giant Segoia sem eru stærstu lifandi verur á jarðarkringlunni.  Miklu stærri og þyngri til dæmis en stærstu hvalir.  Þetta eru risastór ævagömul tré sem þarna hafa vaxið um aldir.  Elstu trén eru talin vera allt að 3.000 ára gömul.  Þau hæstu eru rétt um 100 metrar og ummála þeirra stærstu er um 30 metrar.  Það er algjörlega meiriháttar að upplifa nándina við þessi tré og ímynda sér um leið hvernig heimurinn leit út þegar þeirra fræ tók að spíra og tréð tók að vaxa.  Löngu áður en til dæmis Jesú kom til sögunnar.  Alveg hreint stórmerkilegt.  Svo er þetta alveg hreint yndislegur staður.  Við gengum þarna stóran hring um garðinn upp og niður hóla og hæðir og dáðumst að umhverfinu.

Þarna hittum við dönsk hjón sem voru í svipaðri ferð og við svo við gátum deilt reynslusögu og gefið góð ráð, gaman að því.  En enn skemmtilegra var þó að rekast á ungt par sem gaf sig á tal við okkur þegar þú heyrðu okkur spjalla saman.  Þá voru þetta Spánverjar sem eru búin að búa í Vík í fjógur ár og vinna í Icewear.  Það var alveg meiriháttar að rekast svona á þau þarna.  Einu Íslendingana sem við höfum fundið hér í Kalifornú, ef Íslendinga skyldi kalla :-)
Aftur á móti heyrði eldri maður okkur tala saman og hann kom líka og spurði hvaða við værum, þegar við sögðum honum það þá gargaði hann yfir allan hópinn “they are Icelandic “. Þá vorum hann og frún að plana stopover á Íslandi á næstunni og vildi hann vita allt um Reykjanesið því hann ætlaðoi nú ekki mikið lengra !  En svo ég segi það aftur þá er annar hvor maður annað hvort nýkominn eða að fara til Íslands - markaðsherferðin er að svínvirka svo ég held að bankarnir ættu nú að opna fyrir lán til hótelbygginga aftur !

Eftir Mariposa Grove keyrðum við eftr Highway 49 sem kallast gullgrafaravegurinn. Virkilega skemmtilegt leið en miklu fjölbreyttari og erfiðari en við áttum von á. Upp og niður fjöll og dali í mikilfenglegu landslagi.

Enduðum í smábæ sem heitir Sonora.  Einn af gullgrafarabæjunum sem frægir eru hér um slóðir.  Römbuðum á ágætis hótel í miðbænum sem átti laust herbergi.  Það var heppilegt :-)

Á morgun ætlum við að skoða bæinn og kíkja á Columbia Historical State town áður en við keyrum til San Jose þar sem við ætlum að vera næstu tvær nætur !

Gleymdi reyndar að minnast á það að hitinn hér er orðinn ansi vígalegur 37 stig í dag og brakandi sól var ansi mikið !

Saturday, September 1, 2018

Dagur 11

Rólegur dagur í dag.  Náðum að framlengja hótelinu um eina nótt þannig að við verðum hér til sunnudags.  Hér er afskaplega gott veður svo það var ágætt að sóla sig aðeins á hótelinu í morgun.  Verst að betri helmingurinn sem þó á gótt tækifæri á að verða brúnn nennir ekki að liggja í sólbaði.  Fyrir mér hefur það engan tilgang að liggja í sólbaði enda þyrfti ég að gera það í margar vikur ef einhver árangur ætti að nást.  Þetta er aftur á móti ágætis afslöppun :-)

Fórum á  “byggðasafnið” hér í dag.  Þetta er gullgrafarabær og það var gaman að sjá þeirri sögu gerð skil á safninu.  Þessa helgi er bæjarhátíðin þeirra hér í bæ og var einn af hápunktunum skrúðganga ein mikil sem fór niður aðalgötuna.  Það var þrælskemmtiegt að sjá þetta og gaman að fylgjast með.  Við hittum þarna nokkra heimamenn sem sögðu okkur allt um hina mismunandi vagna og annað slíkt.  Þarna voru til dæmis frambjóðendur til hinna ýmsustu embætta meðal annars til þings.  Það var svo greinilegt að hér eiga demókratar ekki uppá pallborðið og Trump er aðalmaðurinn.  Þetta heyrðum við aftur og aftur í dag.  Við ákváðum nefnilega að heimsækja bæjarhátíðarsvæðið sem er hér rétt utan við bæinn og þar ráfuðum við um og skoðuðum og spjölluðum við ýmsa sem við hittum.  Það er svo merkilegt að hér finnur maður fyrir markaðssetningu flugfélaganna á Íslandi. Annar hver maður sem við hittum átti ættingja, börn, frændfólk eða vinnufélaga sem voru nýkomnir úr stórkostlegu fríi til Íslands.  Hingað til þegar við höfum verið að ferðast þá höfum við hitt fólk sem langar svo ægilega til Íslands en núna var það veruleikinn fyrir alveg ótrúlega marga. Flugmiðinn kostar minna en ferð til Nashville sagði ein og markaðssetningin á landinu er mikil.  Við þurfum ekki að óttast það að ferðamenn séu að hætta að koma öðru nær.  Síðan er verðlagið hér og heima svo sem ekkert svo mjög ólíkt þannig að ferðamenn héðan munu ekki fá áfall yfir því.  Verðið á matseðlinum er kannski mun ódýrara en þegar kemur svo að því að borga reikninginn þá bætist við skattur og hið fullkomlega óþolandi þjórfé.  Á reikningnum eru oftast gefnir valkostir 15 -18 eða 20% ofan á reikninginn og maður lendir alltaf einhvers staðar þarna á milli.  Og maður snýr sér ekki við öðru vísi en að þurfa að borga þjórfé.  Þegar þetta leggst saman þá er verðið orðið ansi mikið öðruvísi en lagt var af stað með í upphafi.