Saturday, September 1, 2018

Dagur 11

Rólegur dagur í dag.  Náðum að framlengja hótelinu um eina nótt þannig að við verðum hér til sunnudags.  Hér er afskaplega gott veður svo það var ágætt að sóla sig aðeins á hótelinu í morgun.  Verst að betri helmingurinn sem þó á gótt tækifæri á að verða brúnn nennir ekki að liggja í sólbaði.  Fyrir mér hefur það engan tilgang að liggja í sólbaði enda þyrfti ég að gera það í margar vikur ef einhver árangur ætti að nást.  Þetta er aftur á móti ágætis afslöppun :-)

Fórum á  “byggðasafnið” hér í dag.  Þetta er gullgrafarabær og það var gaman að sjá þeirri sögu gerð skil á safninu.  Þessa helgi er bæjarhátíðin þeirra hér í bæ og var einn af hápunktunum skrúðganga ein mikil sem fór niður aðalgötuna.  Það var þrælskemmtiegt að sjá þetta og gaman að fylgjast með.  Við hittum þarna nokkra heimamenn sem sögðu okkur allt um hina mismunandi vagna og annað slíkt.  Þarna voru til dæmis frambjóðendur til hinna ýmsustu embætta meðal annars til þings.  Það var svo greinilegt að hér eiga demókratar ekki uppá pallborðið og Trump er aðalmaðurinn.  Þetta heyrðum við aftur og aftur í dag.  Við ákváðum nefnilega að heimsækja bæjarhátíðarsvæðið sem er hér rétt utan við bæinn og þar ráfuðum við um og skoðuðum og spjölluðum við ýmsa sem við hittum.  Það er svo merkilegt að hér finnur maður fyrir markaðssetningu flugfélaganna á Íslandi. Annar hver maður sem við hittum átti ættingja, börn, frændfólk eða vinnufélaga sem voru nýkomnir úr stórkostlegu fríi til Íslands.  Hingað til þegar við höfum verið að ferðast þá höfum við hitt fólk sem langar svo ægilega til Íslands en núna var það veruleikinn fyrir alveg ótrúlega marga. Flugmiðinn kostar minna en ferð til Nashville sagði ein og markaðssetningin á landinu er mikil.  Við þurfum ekki að óttast það að ferðamenn séu að hætta að koma öðru nær.  Síðan er verðlagið hér og heima svo sem ekkert svo mjög ólíkt þannig að ferðamenn héðan munu ekki fá áfall yfir því.  Verðið á matseðlinum er kannski mun ódýrara en þegar kemur svo að því að borga reikninginn þá bætist við skattur og hið fullkomlega óþolandi þjórfé.  Á reikningnum eru oftast gefnir valkostir 15 -18 eða 20% ofan á reikninginn og maður lendir alltaf einhvers staðar þarna á milli.  Og maður snýr sér ekki við öðru vísi en að þurfa að borga þjórfé.  Þegar þetta leggst saman þá er verðið orðið ansi mikið öðruvísi en lagt var af stað með í upphafi.  

No comments:

Post a Comment