Hafði verið svo ótrúlega framsýn að finna bílaleigu svo til við hliðina á hótelinu okkar í San Fransisco. Þannig að við röltum bara rétt upp götuna til að ná í bílinn og lögðum af stað út úr borginni fyrir hádegi. Það tók þó nokkurn tíma að þræða miðborgina til að komast út á highway 1 en gekk samt ágætlega. Ég er reyndar enn meira undrandi á aðstæðum í þessari borg eftir þessa bílferð því hólarnir og hæðirnar í hreinlega öllum hverfum eru hreint með ólíkindum. Það eru blindhæðir í íbúðahverfum og staðir á vegunum þar sem er brekka upp á hólinn úr fjórum áttum. Það hlýtur að vera meiriháttar lýjandi að búa í þessari borg allavega ef þú ert fótgangandi. Við keyrðum svo eins og leið lá meðfram Kyrrahafinu í átt að Monterey Bay og Carmel þar sem við gistum næstu tvær nætur. Þetta er afar falleg leið og ströndin er heillandi. Skemmtilegar sandstrendur, víkur og klettar skiptast á alla leiðina. Heilmikið landslaga og dýralíf enda sáum við ógrynni fugla og sela í hvert sinn sem við stoppuðum. Við fundum alveg hreint ótrúlega skemmtilegan veitingastað á leíðinni sem heitir Miramar og er alveg við ströndina. Sátum þar svo lengi að mér tókst að sólbrenna enda gerir sólarvörnin lítið gagn ef hún er geymd í töskunni.
Á leiðinni stoppuðum við við vitann Point Neuf sem er einn af þeim stöðum sem allir verða að skoða. Mjög fallegur staður en þar sér maður greinilega muninn á aðstæðum heima og hér. Þessi viti sem er það sem allir skoða hér um slóðir er að hrynja vegna viðhaldsleysis og núna er í gangi almenn söfnun til að reyna að bjarga honum. Greinilega enginn Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hér ! Búið er að bjarga ljósgjafanum niður og er lampinn til sýnis. Einstaklega fallegur eins og þessi mynd sýnir og risastór þó það sjáist ekki á myndinni.
Hér keyrðum við í gegnum endalausa akra af berjum alls konar og ætiþistlum. Hér eru ætiþistlar út um allt og alls konar annað grænmeti. Hundruðir hektara ábyggilega undir eða meira. Hér er líka alltaf sól og ríkulegt sumar. Minni þoka en í San Fransisco !
Komum síðdegis til Carmel sem er fallegur lítill bær við Monterey flóa. Reyndar alveg troðfullur af ferðamönnum og augljós túristagildra. Við höfum held ég aldrei séð eins flotta bíla og hér eru. Á bílastæðinu við hótelið er svo mikið af sportbílum að það hálfa væri nóg. Verslanir eru líka allar að henta vel stæðum kúnnum og fasteignasölurnar selja hús sem kosta rúman hálfan milljarð.
Borðuðum á skemmtilegum stað í kvöld sem heitir The treetop restaurant. Skemmtilegir þjónar sem kunna svo sannarlega að auka þjórféð sem er reyndar fullkomlega óþolandi fyrirbrygði. Á leíðinni kíktum við aðeins í búðir og fundum meðal annars þennan hnakk sem okkur leist bara nokkuð vel á. Verðið reynar bara fyrir lengra komna ekki nema rétt um 6 milljónir króna !
No comments:
Post a Comment