Wednesday, August 29, 2018

Dagur 7. 

Lögðum af stað í fyrra fallinu frá Carmel eftir að hafa fyllt á tankinn á bílnum því allir gefa okkur þær ráðleggingar að hafa nægt bensín á bílnu, vatnsflöskur með í för og klósettpappír.  Maður gæti haldið að við ætluðum yfir Nevada eyðimörkina!  En leiðin á milli Carmel og San Simeon er kölluð Big Sur.  Þarna var ekki lagður vegur fyrr en 1923 en áður var þetta talið algjörlega óbyggilegt svæði sem var afar illt yfirferðar.  Enda eru þarna há fjöll sem öll renna meira og minna beint út í sjó. Vegurinn hangir því í hlíðunum og það hefur verið heilmikið afrek á sínum tíma að leggja þetta auk þess sem brúa þurfti öll þessi gil sem þarna eru.  Stærsta brúin og sú frægasta heiri Big Bixby og er ansi tilkomumikil.  Við höfðum ákveðið að keyra suður eftir að hafa legið yfir heimasíðum.  Þannig nær maður að skjóta sér út á öll útskotin og kemst alls staðar betur út á veginn en ef maður keyrir í norður.  Sums staðar hafði lofthræddum verið ráðlagt að keyra uppeftir en mér fannst þetta nú alls ekki svo slæmt.  Auðvitað er víða bratt og snarbratt niður af veginum en Kaninn er bara svo ægilega passasamur með allt að manni dettur ekki til hugar að þetta geti verið hættulegt. Hér eru vegrið á svo til öllum hættulegum stöðum, merkingar í lagi og aksturslagið til fyrirmyndar hjá öllum.  Hafandi keyrt til dæmis niður Serbíu í fjöllunum þá er þetta hreinn barnaleikur.  Það blikna reyndar allar akstursleiðir í þeim samanburði.   En Big Sur er talin vera ein skemmtilegasta aksturleið Bandaríkjanna og maður skilur það vel eftir að hafa ekið þetta.  Einstakt að hafa Kyrrahafið alltaf á hægri hönd, dásamlegar strendur, fossa og fjöll og sérstækar bermyndandir út í sjóinn. Við tókum þetta mjög rólega eins og flestir aðrir, stoppuðum út um allt og dáðumst að umhverfinu.  Fengum okkur að borða á veitingastöðum sem urðu á vegi okkar og röltum um skógana.  Þegar klettunum sleppti komum við á sléttlendi þar sem greinilega var búrekstur og allt annað umhverfi.  Þar fljótlega sáum við fjölda bíla stopp á skipulögðu bílastæði og ákváðum að kíkja þangað líka.   Þá var þetta griðastaður rostunga sem þarna halda til á ströndinni.  Það var einstaklega skemmtilegt að sjá þessar tröllauknu skepnur liggja þarna makindalega í sandinum. Einstaka sinnum bærðu karldýrin á sér og það var mikið sjónarspil að sjá þessari risaskepnur rísa upp og reka upp öskur.  Gaman að þessu.  Komum svo til San Simeon rétt fyrir kvöldmat þar sem við höfðum pantað herbergi á móteli við ströndina.  Kom á óvart, afskaplega gott herbergi og þægilegur staður.  Alls ekki svo mikið verra heldur en rándýra gistingin í Carmel.  

Sáum dásamlegt sólsetur hér á ströndinni í kvöld.  Það var eitthvað alveg sérstakt...

Á morgun Hearst kastali ....

Ég er búin að gefast upp á því að setja myndir hér ínná bloggið.  Þvílíkt vesen í þessari nýju útgáfu af blogger.  Í staðinn set ég helling á facebook.  Stóðst ekki freistinguna og ég sem ætlaði bara að setja eina mynd á dag :-)

No comments:

Post a Comment