Sonora er skemmtilegur lítill bær við Highway 49. Við fundum hótel við aðalgötuna í gömlu húsi og ákváðum að gista þar. Ágætt alveg þó að það aldurinn sjáist alveg. Þarna var túpusjónvarp á herberginu sem okkur fannst ansi smellið. Reyndar var betra efni í boði í túpunni en flatskjáunum hingað til. Ég horfi ekki á sjónvarp á hótelum en betri helmingurinn hefur gaman að því. Hingað til hefur tímanum verið varið í að horfa á auglýsingar í ofgnótt. Svo mjög að “tummy tucker” er skyndilega orðið hið mesta þarfaþing og Crepe erase hrukkukremið er heimilisvinur. Myndi reyndar aldrei þola að horfa á sjónvarpsstöðvarnar hér með þessum endalausu auglýsingum ! ! !
En við fórum eins og alltaf út að borða í gærkvöldi sem er ekki í frásögur færandi nema að við biðum eftir borði á veitingastaðnum í vel ríflega 30 mínútur. Það gerðu svo til allir og fannst það greiniega ekkert tiltökumál. Við höfum lent í þessu áður hér úti og það sem mér finnst svo skemmtilegt er hversu allir eru hressir í biðröðinni. Að bíða þykir sjálfsagt og ekki nokkur maður ergir sig á slíku. Þetta skýrir að stóru leyti held ég hversu sáttir erlendir gestir Ölverks hjá Laufeyu og Elvari eru þó að þar þurfi stundum að bíða eftir borði !
En eftir að hafa rölt aðeins um miðbæ Sonora og kíkti í gamlar búðir þá keyrðum við áfram til bæjar þarna rétt lengra inn í landinu sem heitir Columbia. Þarna er best varðveitta götumynd Bandaríkjanna, lifandi safn sem er hluti af bænum. Í húsunum er alvöru rekstur eins og kom í ljós þegar við alveg óvart lentum á spjalli við hjónin sem eiga kjörbúðina þarna .
Þarna er ferðamannatíminn fjórir tímar á ári og þau hafa eingöngu opið þá. Þarna er hark um ferðamennina rétt eins og við þekkjum að heiman. Þarna var gríðarlega heitt eða um 38 gráður. Samt var þetta að sögn ekkert svo slæmt því þarna fer hitinn oft yfir 42 gráður á sumrin.
California býður upp á alla veðráttu, niður í San Fransisco er alltaf frekar nöturlegt, þoka og kaldara en allst staðar annars staðar. Í staðinn er allt eins veður þar, vetur sem sumar. Ströndin þar fyrir neðan er frískleg og kalt á kvöldin. En eftir því sem innar dregur hitnar á sumrin og getur farið vel yfir 40 gráður en í staðinn er ansi kalt á veturnar og getur snjóað.
Eftir gott stopp í Columbia ákváðum við að bruna til San Jose þar sem við ætlum að liggja í leti fram að flugferðinni heim. Við reyndar gátum ekkert brunað á hraðbrautinni þar sem umferðin rétt silaðist áfram og við vorum rúma 4 og hálfan tíma að keyra þessa leið sem undir eðlilegum kringumstæðum tekur um 2 og hálfan tíma.
Komum til Sunnyvale sem er rétt vð San Jose á hótelið okkar sem býr svo vel að hafa gott sundlaugarsvæði, heita potta og slíkt. Nú verður það óspart notað fram að brottför.
No comments:
Post a Comment