Tuesday, September 4, 2018

Dagur 15

Það sem situr eftir núna þegar við erum að yfirgefa Kaliforniu er hvað þetta er fjölbreytt og skemmtilegt svæði og hve einfalt og öruggt það er að vera hér.  Allir sem við höfum hitt hafa verið hjálpsamir og ræðnir og flestir hafa sýnt alveg hreint ótrúlegan áhuga á Íslandi.  Það eru ekki mörg ár síðan að fáir vissu hvar Ísland var og hvað þá að nokkrum dytti til hugar að eyða fríinu sínu heima a Fróni.  Núna hittum við varla nokkurn mann sem ekki vissi helling um landið og annað hvort ætlaði að fara til Íslands, langaði til Íslands eða átti ættingja og/eða vini sem voru nýbúnir að vera á Íslandi.  Við eiginlega erum hætt að skilja þetta.  Til dæmis á veitingahúsinu hér í San Jose í kvöld.  Þá sitjum við einfaldlega og spjöllum saman og erum ekki að skipta okkur af nokkrum manni, þegar maðurinn á næsta borði hallar sér að okkur og spyr hvort við séum frá Íslandi.  Þegar við játuðum því lifnaði aldeilis yfir honum því hann sagðist fljúga regluega á milli Kaliforníu og Ítalíu og oft næði hann að dáðst að Íslandi þegar flogið væri yfir landið.  Hann sagðist svo sannarlega ætla að stoppa fljótlega. Við fórum auðvitað með vel æfða ræðu um gæði landsins, fegurð og glæsileika svo hann hlýtur að bóka fljótlega.  Við ættum reyndar að fá afslátt af flugi miðað við landkynninguna sem við höfum stundað hér !

Vorum á bændamarkaði í gær og þar var hópur af strákum frá Mexikó að vinna.  Um leið og þeir vissu að við værum frá Íslandi barst talið að knattspyrnu og landsliðinu sem þeir höfðu fylgst með á EM, heldur minna á HM enda “gekk ykkur ekkert vel þá” !  Í Columbia hittum við hjón sem spölluðu við okkur eins og við hefðum þekkst um árabil. Þau ráku búðina og vildu vita allt um Ísland, þau reyndar vissu helling enda að plana draumaferðina sína til þessarar spennandi eyju í norðri. 

En mikið rosalega er mikill munur á samfélögunum hér.  Upp í fjöllunum býr fólk við augljóslega miklu verri kjör en hér niður á ströndinni.  Í þessum smábæjum elska allir repúblíkana og Trump er dýrkaður og dáður. Fólk raunverulega telur hann vera frábæran forseta og að gera frábæra hluti fyrir landið.  Vinkona okkar í kjörbúðinni var aftur á móti sú eina sem hvíslaði að okkur að hún væri nú ekki hrifin af forsetanum. Hún sagði okkur líka að þarna í fjöllunum væru afar margir mjög þröngsýnir og fullt af fólki hefði ekki einu sinni komið út fyrir sýsluna á ævinni.  Sjóndeildarhringurinn væri því óneitanlega  afar þröngur.    

Borginar eru óneitanlega dásamlegar, lifandi, fjölbreyttar og fullar af tækifærum til að gera góða hluti og skemmtilega.  En þegar komið er út á land þá breytist umhverfið og mannlífið verður allt annað. Okkur finnst ekki síður skemmtilegt að þræða þessa litlu bæi og reyna að kynnast mannlífinu og því hvernig hjartað slær á þessum stöðum.  Við höfum líka verið svo heppin að ná að ræða við fullt af fólki og heyra hvernig lifið og tilvera er á þessum stöðum.  Þar höfum við grætt mikið á því að vera Íslendingar enda flestir sem segja það sama:  “Oh, are you from Iceland, how wonderful !  You are the first people we meet from Iceland” .....  og þá byrjar ballið :-)

Þetta verður síðasta færslan þar til okkur dettur til hugar að fara eitthvað annað.

Eitt að lokum:  Ég heyrði einn góðan í gær um San Fransisco.  Mark Twain sá gríðarlega góði rithöfundur sagði einu sinni að kaldasti vetur sem hann hefði upplifað hefði verið sumar í San Fransisco !  Það eru orð að sönnu :-)

Breytir því samt ekki að San Fransisvo er gríðarlega skemmtileg borg ! !


No comments:

Post a Comment